148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

aðgangur að trúnaðarupplýsingum.

[10:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er öllum ljóst að þeir sem unnu að stöðugleikaskilyrðunum í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar höfðu aðgang að trúnaðarupplýsingum sem varða hag íslenska ríkisins. Það liggur fyrir að fyrrverandi aðstoðarmaður hæstv. fjármálaráðherra kom að mjög mikilvægri vinnu á sínum tíma sem laut m.a. að gerð stöðugleikaskilyrða, samningsmarkmiða og annarra útfærslna gagnvart kröfuhöfum og afnámi hafta.

Það er því hneyksli að þessi sami aðstoðarmaður vinni nú fyrir Kaupþing og stærstu eigendur Arion banka. Þá sem stöðugleikaskilyrðin voru sniðin að. Það sem meira er, aðstoðarmaðurinn hóf störf fyrir þá aðila aðeins nokkrum vikum eftir að hann hætti störfum sem aðstoðarmaður hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Við erum fámenn hér á landi. En erum við virkilega svo fámenn að sú staða hafi verið óumflýjanleg? Ég vil spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort honum finnist eðlilegt að fyrrverandi aðstoðarmaður hans geti eina stundina unnið með viðkvæmar trúnaðarupplýsingar fyrir hið opinbera en stuttu seinna farið að vinna fyrir þá aðila sem hafa augljóslega mikla hagsmuni af því að sýsla með þær sömu upplýsingar. Gerði hæstv. ráðherra enga kröfu um að aðstoðarmaðurinn sem starfaði í umboði hans færi ekki að vinna fyrir sömu kröfuhafa og hann var að kljást við fyrir hæstv. ráðherra? Telur hæstv. ráðherra ekki augljóslega að starfsmaður sem býr yfir slíkum upplýsingum sé afskaplega verðmætur starfsmaður fyrir Kaupþing? Hvað gerði hæstv. ráðherra til að koma í veg fyrir að mögulegir hagsmunaárekstrar ættu sér stað?