148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

aðgangur að trúnaðarupplýsingum.

[10:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru algjörlega innihaldslaus orð sem falla hér úr ræðustól. Pukur og fúsk. Það er ekkert pukur og það er ekkert fúsk. Hv. þingmaður sat í ríkisstjórninni sem gerði kaupréttinn við Kaupþing á sínum tíma, hún kannast bara ekki við það. Hún sat í ríkisstjórninni sem gerði kaupréttinn sem nú er verið að virkja en kemur hér upp og talar um pukur og fúsk. Kannast ekki einu sinni við eigin verk.

Hver er að pukra eitthvað eða fúska? Enginn. Þegar menn skoða stöðugleikaskilyrðin, stöðugleikasamningana, þá er ekki annað hægt að gera en segja: Bravó, þetta gekk 100% upp. Þrýstingur á krónuna var enginn. Verkefnið var til þess ætlað að draga úr gjaldeyrisójöfnuði sem hætta var á að myndaðist við uppgjör gömlu slitabúanna. Það tókst 100%. Og stöðugleikaframlögin, sem metin voru á sínum tíma upp á rétt um 380 milljarða, eru í dag metin á um 74 milljarða umfram það sem þá var. (Forseti hringir.)

Ef útboðið sem fram undan er gengur vel þá reynir á afkomuskiptasamning við ríkið. Þannig að ríkið gæti átt uppi í erminni aðra 20 milljarða (Forseti hringir.) í greiðslu frá þessum aðilum ef útboðið sem er fram undan er heppnast vel.