148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

kaup vogunarsjóða í Arion banka.

[10:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Bankasýslan hefur farið yfir það með efnahags- og viðskiptanefnd hvernig þessir atburðir gerðust varðandi virkjun kaupréttarins og hver afstaða hluthafans, ríkisins, hefur verið á hluthafafundum um þessi efni.

Hv. þingmaður er kominn með svarið um hvernig hann metur bankann. Hann les Morgunblaðið. Hann er búinn að komast að því að bankinn sé miklu meira virði en þessir 0,8. Þá er ég með góðar fréttir fyrir hv. þingmann. Við gerðum afkomuskiptasamning við eigendur bankans, Kaupþing. Hann virkar þannig að ef bankinn selst á bilinu 100–140 milljarða skiptist það verð þannig að einn þriðji rennur beint til ríkisins. Ef hann selst á bilinu 140–160 milljarðar skiptist kaupverðið að hálfu milli eigandans og ríkisins. Ef bankinn selst, eins og hv. þingmaður virðist trúa, jafnvel á meira en 160 milljarða, þ.e. hlutur Kaupþings, þá fær ríkið (Forseti hringir.) þrjá fjórðu af kaupverðinu á grundvelli afkomuskiptasamnings. Þannig að ef þetta gengur allt eftir í alþjóðlegu útboði, sem ætti að vera ágætisleið til að finna hvert sé raunverulegt virði bankans, þá skilar það sér mjög ríkulega beint til ríkisins.