148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

kynferðisbrot gagnvart börnum.

[10:50]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þau vekja von í brjósti um að það verði einhverjar aðgerðir í þessum málaflokki. Forvarnir eru ein mikilvægasta leið sem við höfum til að tækla vandamál í samfélaginu, koma í veg fyrir að þau komi upp. Ég sé það æ betur að það er aldrei nægilegt fjármagn nákvæmlega á þessu stigi, í forvarnir á fyrsta stiginu sem eru svo mikilvægar. Ég sé þetta með geðheilbrigðismálin, nú er verið að leggja niður GET-teymið þar, og ég sé að það vantar fjármagn hérna.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann ætli sér að fara í einhvers konar langtímaáætlanagerð um forvarnir gegn kynferðisofbeldi gagnvart börnum og hvort hann ætli að fjármagna frjáls félagasamtök sem eru að vinna gríðarlega mikilvæga vinnu og hafa ótrúlega mikla reynslu að baki í þessum málaflokki eða hvort þetta snúist bara um að gera þetta hjá Barnaverndarstofu eða hjá opinberum stofnunum.