148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

málefni hinsegin fólks.

[11:04]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Ég þakka hv. ráðherra ágætlega skýr svör, óvenjuskýr svör. Ég hvet hann eindregið til dáða í þessum efnum. Það er ánægjulegt að heyra að mismununarfrumvörpin eru á leiðinni inn í þingið enda áttu þau að heita tilbúin og höfðu reyndar verið lögð áður fram í þinginu þannig að mig var farið að lengja nokkuð eftir þeim. Ég veit að þau hafa vakið mismunandi áhuga hjá einum samstarfsflokki hæstv. ráðherra en ég get fullvissað hann um að hann mun örugglega njóta góðs stuðnings stjórnarandstöðunnar við það að koma þessum málum í gegn.

Ég hvet hann líka eindregið til dáða í stuðningi og samningum við Samtökin '78. Það er til skammar hvernig við styðjum við þessa starfsemi, hún er gríðarlega mikilvæg. Það ráðgjafarstarf sem þarna fer fram er afar mikilvægt, ekki síst þegar við horfum á það að við höfum sem þjóð lagt sérstaka áherslu á móttöku hinsegin flóttamanna sem eykur enn frekar álagið á þessari ráðgjöf. Við sem stjórnvöld þurfum að sýna metnað og standa vel að fjárstuðningi við samtökin þannig að þau geti sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Því hvet ég ráðherra til dáða í þessum efnum.