148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[11:18]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og líka að hann skuli fagna því að ég sé hér með mál. Það er alþekkt óþreyja stjórnarandstöðunnar á hverjum tíma eftir því að eitthvað komi frá ríkisstjórn. Þá er líka reglan sú að vera frekar á móti því sem þaðan kemur þegar það kemur. Það er önnur saga.

Það sem hv. þingmaður nefnir hér eru gríðarlega mikilvæg atriði. Þegar við horfum til þess hvernig við fórum að þegar við settum lög um reyktóbak á sínum tíma þá létum við í raun tóbakið njóta vafans. Við vorum mjög seinþreytt til þeirrar niðurstöðu að það væri sannarlega hættulegt.

Í þessari löggjöf nálgumst við það hinum megin frá, ef svo má að orði komast. Það er í samræmi við það sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir. Hún bendir á að hvorki liggi fyrir skaði né skaðleysi þessarar vöru. Því leggur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin til við ríkin sem eru að setja löggjöf um þessa neysluvöru að takmarka heimildir til notkunar rafrettna á sama hátt og gildir um reykingar þar til sýnt hefur verið fram á mögulegt skaðleysi vörunnar.

Fyrst og fremst liggja þar að baki þau sjónarmið að normalísera ekki notkunina eða gera hana eðlilega eða mikilvæga eða eitthvað slíkt, bæði fullorðnum og börnum, sem fyrsta skref, en halda því jafnframt til haga hversu mikilvæg þessi leið er fyrir þá sem hyggjast leggja tóbaksreykingar á hilluna. Þannig að það er samkvæmt leiðsögn frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sem þessi nálgun er valin. Ég treysti því að þingið (Forseti hringir.) fjalli um þessi mál eins og önnur.