148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[11:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson brást ekki væntingum mínum um að vera með frumlegt andsvar um að reykja lýsi. Ég held að það gæti verið mjög áhugavert — eða ekki. (Gripið fram í.)

Að öllu gamni slepptu þá er í 8. gr. í raun ákveðin valkvæð nálgun, þ.e. við tökum hér ákvörðun um þá nálgun. En fyrir liggur að við höfum ekki upplýsingar um áhrif af gufunni sem slíkri, þannig að það snýst ekki bara um efnin sem þekkt eru, heldur líka um inntöku gufu yfir langan tíma o.s.frv. Af þeim sökum er þessi leið valin.

Og enn og aftur, ég held að það sé mikilvægt almennt, af því að ég og hv. þingmaður höfum, eins og mjög hressileg dæmi sanna, sérstakan áhuga á því hvernig málum reiðir af í gegnum þingið, og ég held að það væri ágætisleið almennt að við gætum lesið mjög hratt út úr svona frumvarpi hvað er samkvæmt Evrópulöggjöfinni og hvað er staðbundið og þar af leiðandi í raun það sem er til umfjöllunar í nefndinni.

Hv. þingmaður spyr um þær takmarkanir sem fram komu í frumvarpinu um stærð áfyllingaríláta. Því er til að svara að þar er sveigjanleikinn mjög takmarkaður, nánast enginn, þ.e. þessi ílát eru í samræmi við þær hámarkskröfur sem fram koma í frumvarpinu, þannig að við göngum eins skammt eins og hægt er samkvæmt Evrópulöggjöfinni. Sveigjanleiki þingsins til hafa áhrif á þann hátt er því samkvæmt mínum upplýsingum afar takmarkaður, ef einhver.