148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[11:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns um tækifæri okkar til þess að hafa áhrif á fyrri stigum þá er það gömul og ný umræða og á í sjálfu sér við fjölmarga málaflokka sem undir samninginn heyra. Við gengum mjög langt í kjölfar efnahagshrunsins að draga saman mönnun ráðuneytanna í Brussel til þess að vakta mál á fyrri stigum. Það hefur ekki verið bætt upp eftir það. Það er algert lykilatriði að ráðuneytin séu með fólk á staðnum. Mér skilst að Norðmenn séu með tíu sinnum fleira fólk á staðnum til þess að vakta löggjöfina, þeirra staða er í raun og veru algjörlega sambærileg þeirri sem við erum í. Ég hitti einn íslenskan sérfræðing í Brussel sem sagðist vakna með hlaupasting vegna þess að það væri tilfinningin frammi fyrir verkefnum dagsins, að þurfa að vakta alla hluti í raun af sama afli og tíu Norðmenn. Þetta er ekki bara … (LE: Lítið mál.) Hv. þm. Logi Einarsson telur að það sé lítið mál.

Varðandi þá spurningu hvort við séum of varkár er það líka spurning sem hv. þingmaður getur spurt. Ég lít svo á að það sé að minnsta kosti mitt verkefni að taka þá stöðu að vera svo varkár sem nokkur kostur er, sem ráðherra heilbrigðismála og lýðheilsumála, að láta heilsu almennings njóta vafans. Ef Alþingi ákveður síðan að setja þá línu annars staðar verður það niðurstaða Alþingis. En sem ráðherra heilbrigðismála get ég ekki annað en tekið alvarlega ábendingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í þessum efnum sem öðrum. Og þess vegna er frumvarpið lagt fram í þessari mynd.