148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[11:33]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Um frumvarpið má margt segja en ég verð að viðurkenna að í því er margt sem veldur mér talsverðum áhyggjum. Ég hef áhyggjur af beitingu strangrar neyslustýringar sem takmarkar frekar en tryggir aðgang að rafrettum. Ég hef áhyggjur af forræðishyggju og virðingarleysi fyrir frelsi einstaklingsins. En mestar áhyggjur hef ég af heilsu landsmanna.

Á ári hverju látast um 400 manns af völdum tóbaksnotkunar á Íslandi. Notkun tóbaks veldur samfélagslegu tjóni og miklum samfélagslegum kostnaði. Eitt stærsta skref sem við höfum stigið til bættrar lýðheilsu Íslendinga er að draga úr tóbakstengdum sjúkdómum og dauðsföllum. Ég hef áhyggjur af því að þetta frumvarp sé ekki í takti við þá áherslu okkar að draga úr skaðlegum áhrifum tóbaksneyslu og hefta verulega aðgengi að því hjálpartæki sem hefur skilað einna mestum árangri í að draga úr neyslu tóbaks.

Frumvarpið er liður í innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins og margar þær greinar sem er að finna í því eru teknar beint úr tilskipuninni. Það er mikilvægt að gæta að því að við slíka lagasetningu höfum við ráðrúm til að túlka tilskipunina, enda hefur hún ekki beint lagagildi hérna. Við verðum að meta hvernig best sé að innleiða tilskipunina.

Frumvarp um sama efni var lagt fram af þáverandi heilbrigðisráðherra á 146. löggjafarþingi en nálgunin í því frumvarpi var nokkuð frábrugðin því sem við ræðum hér um. Þá var áætlunin að fella notkun rafrettna undir lög um tóbaksvarnir. Það verður að telja óheppilegt þar sem rafrettur geta einmitt virkað sem úrræði fyrir þá sem vilja hætta að nota tóbak og er því eðlismunur á þessu tvennu. Það að rafrettur skuli hljóta sérlög er út af fyrir sig bót en við verðum þá að gæta að því að lögin séu þannig orðuð að þau séu til að bæta hag og heilsu notenda.

Mig langar að ræða sérstaklega um nokkrar greinar frumvarpsins. Þar má fyrst nefna 4. gr. sem fjallar um viðvaranir á umbúðum. Samkvæmt greininni eiga að vera merkingar á rafrettum og áfyllingum um áhrif vörunnar á heilsu auk þess sem leiðbeiningar eiga að fylgja um notkun og geymslu. Það er nokkuð óheppilegt að grein þessi er óskýr og þannig er ekki tilgreint að þær vörur sem hljóta merkingar og viðvaranir innihaldi nikótín. Þetta getur gert neytandanum erfitt fyrir að velja úr þær vörur sem eru hættuminni, t.d. þegar einstaklingur sem hefur notað rafrettuvökva með nikótíni vill skipta yfir í vökva án nikótíns.

Rétt væri að einskorða merkingar á vörum við þær vörur sem innihalda nikótín, enda er það efnið sem verið er að vara við.

Þá fjallar 7. gr. um hámarksstyrkleika og stærð nikótínvökva og áfyllinga. Samkvæmt frumvarpinu skal hámarksstyrkur tilbúins vökva vera 20 mg á ml af nikótínvökva. Það viðmið er mjög lágt og er óvíst að sá styrkleiki dugi fyrir alla þá sem eru að hætta reykingum. Aðrar nikótínvörur bjóða upp á að byrja með hátt magn nikótíns og lækka það eftir því sem þörf notandans minnkar. Heppilegt væri ef það sama væri í boði fyrir þá sem kjósa að nota rafrettur og því mikilvægt að við gætum að því að fyrrum stórreykingarmenn hafi aðgang að vökva sem inniheldur nægilegt magn af nikótíni til að slá á þörf þeirra.

Í 7. gr. er einnig fjallað um hámarksstærð áfyllingar en samkvæmt greininni á hún að vera 10 ml sem er afar lítið. Í ákvæðinu virðist enginn greinarmunur vera gerður á því hvort um er að ræða vökva með nikótíni eða án nikótíns. Úr þessu þyrfti að bæta enda engin ástæða til að takmarka magn rafrettuvökva sem inniheldur ekkert nikótín með þessum hætti.

Hvað varðar þessa 10 ml stærð fyrir nikótínvökva verður að segjast að hún er afar lítil. Hún mun fela í sér aukna plastmengun, aukinn kostnað fyrir neytendur og minna vöruframboð. Hún mun með mjög beinum hætti takmarka aðgengi að rafrettum og gera þær að verri kosti fyrir þá sem vilja hætta að reykja.

Að lokum er í 7. gr. fjallað um hámarksstærð á tanki í rafrettum en samkvæmt greininni skal hún að hámarki vera 2 ml. Flest tæki sem seld eru í dag eru með mun stærri tanka og velta má upp hvort ekki væri hægt að stækka þá tankastærð sem nefnd er í lögunum þannig að í það minnsta tæki með meðalstóra tanka yrðu leyfileg.

Forseti. Mig langar einnig að nefna það sem fram kemur um takmörkun á notkun rafrettna. Þar kemur listi yfir þá staði innan húss sem ekki má nota rafrettur. Ég velti fyrir mér hver þörfin sé á þessu. Rannsóknir hafa sýnt að jafnvel inni í „veip“-búðum, þar sem rafrettur eru mikið notaðar, er lítið sem ekkert af skaðlegum efnum í andrúmsloftinu. — Ég ætla að fá að sletta, með leyfi forseta, og vitna í rannsókn California Department of Public Health, því ég geri mér ekki grein fyrir hvernig á að þýða það.

Áhyggjur mínar eru af því hvort við séum að ganga of langt og í raun að gera að verkum að fólk sem er að reyna að hætta að reykja og nota „veip“ muni hreinlega byrja að reykja aftur. Sem yrði mjög slæmt.

Þetta lagafrumvarp hefur fengið talsverða gagnrýni frá þeim einstaklingum sem í dag nota rafrettur. Ég hef áhyggjur af því og legg áherslu á að við hlustum á notendur þegar við fjöllum um frumvarpið hér á þinginu. Ef við viljum að rafrettur séu raunverulegt úrræði fyrir þá sem vilja hætta notkun tóbaks verðum við að tryggja að lög um þær séu ekki óheyrilega íþyngjandi.

Þá vil ég benda á frumvarp sem þingmenn Pírata lögðu fram á 146. löggjafarþingi um rafrettur og tengdar vörur. Við vinnslu frumvarpsins var viðhaft samráð við notendur rafrettna og komið til móts við sjónarmið þeirra. Ég vil hvetja þingmenn sem koma til með að fjalla um þetta mál til að kynna sér efni frumvarpsins og hafa það til hliðsjónar þegar við fjöllum um það lagafrumvarp sem hér er til umræðu.

Það er alveg ljóst að notkun rafrettna getur hjálpað stórum hluta reykingarmanna að hætta að reykja. Þegar kemur að því að veita almenningi aðgang að slíkum úrræðum verðum við að gæta að því að falla ekki í gryfju forræðishyggjunnar heldur meta til jafns þau sjónarmið sem mismunandi hópar hafa uppi. Það er mikilvægt að tryggja öryggi neytenda og öryggi barna en við verðum einnig að virða ákvörðunarrétt þeirra einstaklinga sem kjósa að nýta sér þetta úrræði. Við verðum að treysta hinum almenna borgara til að taka vel upplýstar ákvarðanir um eigin heilsu.

Það er ekki deilt um það hér að nikótín er ávanabindandi efni. En hættan af neyslu þess er lítil samanborið við hætturnar sem felast í hefðbundinni neyslu tóbaks. Þrátt fyrir það er sú löggjöf sem hér á að setja í það minnsta jafn ströng og lög um tóbaksvörur ef ekki strangari. Til dæmis er hægt að sýna fram á að samkvæmt bresku rannsóknum eru „veip“-reykingar 95% skaðlausari en reykingar venjulegs tóbaks. Þannig að það eru rannsóknir sem sýna fram á hversu miklu skaðlausara þetta er.

Mig langar að hvetja til þess að við gerum á þessu frumvarpi nauðsynlegar breytingar við meðferð málsins í þinginu, að við hlustum á sjónarmið neytenda og tryggjum að rafrettur haldi áfram að vera raunverulegur valkostur fyrir þá sem vilja hætta að reykja.