148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[11:43]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Jú, ég tek hjartanlega undir orð hv. þingmanns. Í raun og veru er dálítið áhugavert með þessa bresku rannsókn sem ég vísaði í áðan sem sýndi fram á að það að „veipa“ veldur 95% minni skaða en reykingar. Í þeirri rannsókn kemur fram að niðurstöður hafi sýnt nærri 98–99% minni skaða en þeim þótti óábyrgt að auglýsa þá niðurstöðu.

Ég tek undir þessi orð hv. þingmanns. Við verðum að passa upp á að við gerum fólki ekki erfiðara fyrir og gerum það óaðgengilegt að „veipa“ fremur en að reykja sígarettur. Það er mikilvægt, að geta valið þetta. Ég held að hluti af þessu sé líka það að geta „veipað“ inni. Ég geri mér grein fyrir að við þurfum að setja því skorður á einhvern hátt en kannski ekki svona miklar. Ef fólk er sent út í rok og rigningu að veipa líka, hvers vegna ekki þá bara að reykja? Við verðum á einhvern hátt að gera þetta meira aðlaðandi en að reykja tóbak. Það þýðir að við megum ekki setja sömu skorður og á tóbak. Sérstaklega verðum við að horfa á að rannsóknir eru í gangi. Þetta er að þróast. Það eru að koma nýjar og nýjar upplýsingar. Þessi Evrópureglugerð er byggð á gömlum rannsóknum sem eru þegar orðnar úreltar. Höfum það líka í huga.