148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[11:44]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla kannski ekki að beina neinni spurningu til hv. þingmanns en frekar að brýna heilbrigðisráðherra. Það kom fram í máli hv. þingmanns að um 400 manns deyja af völdum reykinga á hverju ári, er það ekki rétt? Eitthvað svoleiðis. Hér er sennilega um að ræða stærsta skaðaminnkunartækifæri samtímans, þ.e. að draga úr ótímabærum dauðsföllum milljóna manna á hverju ári.

Mér finnst að hv. ráðherra ætti að velta fyrir sér að nálgast málið þannig og kynna sér út í hörgul nýjustu rannsóknir á sama tíma og við setjum um þetta mjög nákvæma löggjöf. Ég hef ekkert á móti því þó að notkunin sé takmörkunum háð, þó að ekki megi nota þetta innan dyra og annað — þessu fylgir ekki bara hætta, þessu fylgja óþægindi, lykt, gufur og ýmisleg sem á kannski ekki við alls staðar. En þetta þarf a.m.k. að verða þannig að reykingamenn hafi beinlínis ávinning af því að fara í rafrettur frekar en að halda áfram hinu ógeðinu.