148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[11:50]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Þetta eru mikilvægar vangaveltur því að það er ofboðslega furðulegt að takmarka stærðirnar á þennan hátt. Þegar kemur að því hvort hægt sé að finna einhverjar lausnir, að fólk komi með sínar eigin endurnýtanlegu umbúðir, er spurningin: Mun fólk gera það? Hefur sagan sýnt það? Í raun og veru þurfum við að auðvelda fólki að vera umhverfisvænt, ekki flækja það. Það er líklegra til árangurs. Og ég skil ekki þörfina á að takmarka þetta. Ætlum við að selja bara fjórar sígarettur í pakka héðan í frá? Ætlum við bara að selja vodka í litlum flöskum? Af hverju erum við að takmarka þetta á þennan hátt? Er ekki hægt að ganga út frá því að fólk sé skynsamt og fái smáfrelsi í ákvarðanatöku varðandi sinn eigin líkama? Þetta er pælingin.

Það væri áhugavert að heyra rökin fyrir þessu. Á þetta að gera að verkum að fólk reyki minna? Mér finnst það ólíklegt. Þetta mun gera vöruna miklu dýrara fyrir fólk og óumhverfisvænni og takmarkar aðgengi fólks. Að hvaða leyti mun fólk hugsa: Æ, ég fer bara að reykja sígarettur aftur? Það er alls ekki það sem við viljum gera.