148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.

202. mál
[12:01]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra mæli hér að nýju fyrir frumvarpi til laga um rafrettur. Frumvarp um sama efni var flutt af fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra á 146. löggjafarþingi, þá var það flutt sem hluti af tóbaksvarnalögum. En nýmælið í þessu frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra er að nú eru sett fram sérlög um rafrettur ásamt fleiri nýmælum.

Hér er verið að búa til löngu þarfan ramma og regluverk um rafrettur um leið og frumvarpið sem er mælt fyrir byggir á tilskipun Evrópusambandsins. Mig langar að tæpa örstutt á því er varðar forvarnir og börn og ungmenni. Í ljósi aukinnar notkunar rafrettna verðum við að hafa í huga að neysla þeirra á meðal ungmenna og barna hefur vaxið gríðarlega.

Eins og fram kom í könnun Rannsókna og greiningar í október 2016 síðastliðinn höfðu 46% stráka undir 18 ára aldri prófað rafrettu einu sinni eða oftar og í sömu rannsókn sögðust 40% stúlkna undir 18 ára aldri hafa prófað slík tæki. Eins og við vitum eru rafrettur af ýmsum toga. Sumar innihalda nikótín og aðrar ekki. Það hefur hingað til ekki verið skýrt afmarkað. Það er löngu kominn tími til að afmarka og búa til regluverk utan um þessa tegund nikótínnotkunar.

Fyrir þá sem nota rafrettur hefur það hingað til ekki verið nægilega skýrt hvort um sé að ræða nikótíninnihald í vörunni og þá í hvaða magni það er. Hingað í pontu hafa komið þingmenn sem hafa talað um að nikótín sé skaðlaust efni, en það svo sannarlega ekki þannig. Nikótín er sterkt ávanabindandi efni og er flokkað þannig hjá Umhverfisstofnun. Einnig vísað í greinargerð í frumvarpinu sem við ræðum hér. Í aðfararorðum tilskipunar ESB frá árinu 2014 er sérstaklega tekið fram að rafrettur geti rutt brautina til nikótínfíknar og að lokum til hefðbundinnar tóbaksneyslu því að með þeim sé líkt eftir reykingum og þær gerðar eðlilegar. Það kom líka fram í máli Láru G. Sigurðardóttur, læknis og fræðslustjóra hjá Krabbameinsfélagi Íslands, á ráðstefnu sem haldin var 29. september 2016 á vegum samstarfshóps um forvarnamál, sem heitir Náum áttum. Í máli Láru Sigurðardóttur kom fram að það nikótín sem er í rafrettum sé ekkert öðruvísi en annað nikótín og samkvæmt þeim rannsóknum sem Lára vísaði í eru þeir unglingar sem nota rafrettur líklegri til að leiðast síðan út í sígarettureykingar. Máli sínu til rökstuðnings vitnaði Lára í nokkrar rannsóknir, þar á meðal umfangsmikla bandaríska rannsókn sem sýndi fram á slík tengsl.

Hún nefndi líka þátt sem er ansi áhugaverður í umræðunni almennt séð og við ræddum sem tókum þátt í umræðum um frumvarp sem lagt var fram af hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra Óttari Proppé, það er þáttur sem ég hef haft áhuga á að skoða frekar, þ.e. að tóbaksfyrirtækin hafa fjárfest gríðarlega mikið í rafrettuiðnaðinum. Þær fjárhæðir sem fara í kaup á rafrettuauglýsingum hafa hátt í tuttugufaldast á þremur árum samkvæmt bandarískum rannsóknum. Þarna er greinilega gróðavon að finna af hálfu tóbaksfyrirtækjanna sem sjá gróða í markaði með rafrettur.

Því miður er það svo að yngsta kynslóðin er auðveldasta bráðin þegar kemur að rafrettunotkun vegna þess að án reglugerðar og án þess að hafa einhvers konar lagaramma utan um þennan málaflokk bregðumst við ekki við tilmælum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Þá stuðlum við að því að hér sé notkun nikótíns gerð eðlileg meðal barna og ungmenna. Við sjáum að alveg frá 2016, þegar sú rannsókn var gerð sem ég vitna til, hefur notkun rafrettna meðal ungmenna hefur aukist.

En ég fagna því að loksins sé komin reglugerð í kringum þennan málaflokk. Eins og kveðið er á um í frumvarpinu er líka verið að skerpa þar á og leyfa innflutning á rafrettum, sem hingað til hefur ekki verið gert. Fyrir þá sem líta á þetta sem nauðsynlegt tæki til að minnka tóbaksnotkun sína þá er hér komið afmarkað regluverk í kringum það.

Í umræðum hér 25. apríl við fyrra frumvarpið frá fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra hvatti ég til þess að ákvæði yrði þar um fræðslu og forvarnir í grunnskólum landsins og fyrir ungmenni, og sömuleiðis um merkingar. Ég sé að úr því hefur verið bætt í þessu frumvarpi. Það er af hinu góða. Ég held að meðfram þessu sé afskaplega mikilvægt að við fræðum börn og ungmenni um rafrettur og mögulega skaðsemi þeirra. Ég held að það sé löngu orðið tímabært. Og sömuleiðis, ef rafrettur nýtast því fólki sem vill hætta notkun á hinu svokallaða hefðbundna tóbaki og nota þetta í staðinn, held ég að það sé af hinu góða að skýra regluverkið og rammann varðandi sölu, innflutning og svo um auglýsingar og hvar og hvenær neyta megi þessa varnings.

Ég styð þetta frumvarp og fagna því að loksins sé komið fram regluverk er lýtur að rafrettum.