148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

lax- og silungsveiði.

215. mál
[12:32]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Mörgum kann að þykja sérstætt að álar hafi náð inn á Alþingi. Það eru fáir sem þekkja þennan merkilega fisk sem virðist enga umtalsverða þýðingu hafa hér á Íslandi og enginn veit hversu mikið hefur veiðst af í landinu. Hann hefur þó lengi verið veiddur í einhverju magni víða um land, m.a. í lækjum og smáám og jafnvel þar sem volgrur eru en þar hefur állinn haldið sig til, skurðum jafnvel, framræsluskurðum og öðru slíku. Þetta er fiskur sem er svokallaður farfiskur, hrygnir langt suður í hafi, m.a. í því fræga Saragossa-hafi, sem er á milli Suður-Ameríku og Afríku þar sem ríkir eilíft logn. Síðan kemur fiskurinn hingað og dvelur a.m.k. hluta úr ári.

Hér liggur fyrir að takmarka eða banna veiðar á álum á Íslandi, m.a. að beiðni erlendra samtaka, bæði samtaka veiðiþjóða og alþjóðlegra samtaka sem hafa með friðun að gera og annað slíkt, sem og sérfræðinga, með samþykki íslenskra sérfræðinga. Menn geta auðvitað spurt sig af hverju, hver bakgrunnurinn sé að þessu. Þá kemur það til að þessi ágæti fiskur er eiginlega það sem heitir á latínu pars pro toto, eða hluti fyrir heild. Það eru nefnilega umhverfisbreytingar í hafi sem kalla á þessa friðun fremur en miklar veiðar að mínu mati. Það eru veðurfarsbreytingar, hlýnun á heimsvísu, hún er eins og menn vita orðin hraðari en sum líkön gerðu ráð fyrir, m.a. hér á norðurslóðum. Það er auðvitað fleira sem hefur áhrif, veiði ála að einhverju marki, en líka umhverfisbreytingar sem við sjáum minna til, eins og súrnun í hafi. Súrnun sjávarins fer að verða alvarlegt vandamál sums staðar í heiminum, t.d. við vesturströnd Kaliforníu.

Þessar umhverfisbreytingar valda því að það fækkar í fiskstofnum. Þeir flytja sig til og það koma jafnvel fram sjúkdómar í þeim. Állinn er einmitt gott dæmi. Ýmsum smáum þekktum nytjastofnum hér við land hefur fækkað bókstaflega og ekki endilega hægt að tengja það veiðum. Tilflutningur stofna er þekktur hér. Dæmi um það er makríllinn. Og sjúkdóma sem gjósa upp í ákveðnum nytjastofnum eins og síld er að einhverju leyti hægt að rekja til þessara umhverfisbreytinga.

Við getum fært okkur inn á land og skoðað sjófugla eða nýjar tegundir fugla í skógum og annars staðar og síðast en ekki síst sjúkdóma sem eru farnir að berast hingað, m.a. með skordýrum sem ekki hafa þrifist hér, m.a. vegna veðurfars, en eiga nú greiða leið inn til okkar, eða berast jafnvel með fólki. Allt þetta gerir það að verkum að við þurfum að íhuga á hvaða ferð við erum.

Við getum fært okkur inn á land og lengra og skoðað aðrar umhverfisbreytingar sem blasa við, hvort sem það er hopun jökla eða annað. Allt þetta minnir okkur á að við verðum að fara að ná árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Ég get líka nefnt rányrkju; þó að það eigi ekki endilega við um álinn er alveg ljóst að mjög margir fiskstofnar í heiminum eru núna fórnarlömb rányrkju sem þarf að koma í veg fyrir. Við erum því ekki bara að tala um sjálfbærar veiðar á álum hugsanlega í framtíðinni, heldur öðrum fiskstofnum og öðrum lifandi verum sem við ætlum að leggja okkur til munns.

Ég hvet til þess að þetta frumvarp fari sína hefðbundnu leið í gegnum nefnd og verði samþykkt skjótt og vel í þverpólitískri sátt.