148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

útgáfa vestnorrænnar söngbókar.

119. mál
[12:53]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ég mæli nú fyrir tillögu til þingsályktunar á þskj. 188, um útgáfu vestnorrænnar söngbókar. Tillagan hljóðar á þessa leið:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að kanna áhuga ríkisstjórna Grænlands og Færeyja á samvinnu um útgáfu vestnorrænnar söngbókar með nótum.“

Í greinargerð sem tillögunni fylgir segir m.a.:

Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2017, sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 1. september 2017 í Reykjavík.

Stofnsáttmáli Vestnorræna ráðsins frá 24. september 1985 fjallar um nauðsyn þess að íbúar Vestur-Norðurlanda styrki, efli og þrói samstarf sitt á sviði menningar, viðskipta og samgangna. Ýmislegt hefur verið unnið í tengslum við það. Aukið samstarf eykur skilning milli þjóða og stuðlar að friðsamlegum samskiptum þeirra á milli. Á þeim 32 árum sem liðin eru frá því að stofnsáttmálinn var undirritaður hefur þróast náið samstarf milli þingmanna landanna og hefur það stuðlað að auknum menningarlegum tengslum milli þjóðanna. Vestnorræn söngbók með nótusettum lögum á íslensku, færeysku og grænlensku yrði íbúum landanna kynning á þjóðtungum og sönglagamenningu nágranna sinna.

Með tillögunni er ríkisstjórn Íslands hvött til að beita sér fyrir því að vestnorræn söngbók verði gefin út með lögum á þjóðtungum landanna þriggja. Fyrsta skrefið í þessa átt væri að setja á fót vinnuhóp fagfólks frá löndunum þremur sem myndu velja lögin og útsetja þau með nótum. Fjármögnun vinnuhópsins ætti að ná yfir útgáfu söngbókarinnar í löndunum þremur auk greiðslna höfundaréttarlauna listamanna.

Vestnorræna ráðið hefur í gegnum árin safnað 90 lögum frá löndunum þremur og gæti það safn nýst vinnuhópnum.

Herra forseti. Fyrir hönd Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins legg ég nú þessa tillögu fram og hef væntingar um að efni hennar verði utanríkismálanefnd innblástur til þess að afgreiða þetta með jákvæðum hætti.