148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

rannsóknir á örplasti í lífverum sjávar í Norður-Atlantshafi.

120. mál
[13:01]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Inntak þess máls sem hér er flutt er eiginlega bara eitt orð, þ.e. sóun. Til að framleiða 1 lítra af flöskuvatni þarf að meðaltali 1,6–3 lítra af vatni eftir framleiðsluaðferð og efni í ílátinu og aðstæðum á framleiðslustað. Ég hef ekki séð tölur um sölu flöskuvatns hérlendis, en það er eins og allir vita nóg af hreinu kranavatni á flestum mannvistarstöðum hér, en salan á heimsvísu er líklega um 200 milljarða flaskna á ári. Af þeim seljast 25% í Bandaríkjunum þar sem búa um 4% mannkyns. Heildarsala á flöskuvatni á heimsvísu nemur 500–100 milljörðum dollara á ári. Það er há upphæð. Langmest af vatninu er eins og vitað er tappað á mjúkar plastflöskur á vegum stórfyrirtækja.

Þá eru ótalin plastmálin, pappamál með plastloki, allt sem fylgir skyndibitastöðum, plasthnífapör, vinnustaðaneysla á te og kaffi og sumum drykkjum öðrum, svo loks allir sætu gosdrykkirnir og ávaxtadrykkirnir. Í heild er þessi plastnotkun ævintýraleg.

Í skrifum sérfræðinga um auðlindamat kemur alls staðar fram að 21. öldin verður tímabil hámarksframleiðslu efna úr helstu jarðefnaauðlindum heims. Svarið við ógninni sem felst í nánast fullri auðlindaþurrð, þótt ekki væri nema sumra efna, er þannig að endurvinna verður yfir 90% af öllum efnum sem falla til eftir notkun ef vel á að fara. Þetta á t.d. við um málma og ýmisleg sjaldgæf jarðefni, en þetta á líka við um plast.

Að mörgu leyti er plast hlutgervingur auðlindavandans. Það er unnið úr jarðolíu sem er takmörkuð, óvistvæn og ósjálfbær auðlind, og auk þess er það þeirrar gerðar að brotna afar seint niður í náttúrunni. Mikið af plasti brotnar eða tætist í sundur og geymist í yfirborðsjarðlögum svo öldum skiptir, eða berst í grunnvatn, ár, tjarnir, vötn og út í sjó.

Noti Íslendingar plast í jafn miklum mæli og íbúar Norður-Ameríku og Evrópu er ársnotkun okkar vanáætluð sennilega nú í kringum 40 þús. tonn, gæti verið nær 60 þús. tonn á ári. Plast er langt yfir 20% af úrgangi í endurvinnslu- og sorpstöðvum. Nú er farið að endurvinna það plast með því að flytja það út. Það er mikil framför.

Yfir 90% umbúðaplasts alls heimsins að verðmæti 70–100 milljarða evra hverfur út í umhverfið á ári hverju. Feikn af plasthlutum lendir í sjó þar sem straumakerfi búa til hringstreymi í úthöfum. Þar hafa myndast fimm meginflákar fljótandi plasts, sá stærsti er nálægt miðju Kyrrahafsins. Varkárt stærðarmat á honum hljóðar upp á sjö- til tuttugufalt flatarmál Íslands. Talið er að um 10% framleiðsluvara úr plasti lendi árlega í sjó, gæti verið milli 20 og 30 milljón tonna. Takmörkuð svæðatalning í hafi bendir til þess að ríflega 5.000 milljarðar smárra og stórra plaststykkja sem eru yfir 5 millimetrar í þvermál fljóti í heimshöfunum. Þyngdin er talin jöfn árlegri heimsframleiðslu á plasti.

Magn og útbreiðsla hættulegra öragna úr plasti í umhverfinu úr snyrtivörum, tannkremi og fleiru eru óþekktar stærðir. Tjón útgerða, ferðaþjónustuaðila, sveitarfélaga vegna hreinsunar og annars á heimsvísu af völdum plasthluta, er erfitt að áætla, en þó er til árstala upp á 1.750 milljarða íslenskra króna.

Ein röksemd fyrir notkun og framleiðslu plastumbúða og brúkshluta úr plasti er að það sé mjög orkusparandi miðað við sams konar vörur úr öðrum efnum. Þá er að líta á mat á gagnsemi, nauðsyn og umhverfisáhrif plastsins því að það lýtur mörgu öðru en orkueyðslu við framleiðsluna. Heildræna matið á umhverfisáhrifum plasts er efninu alls ekki í hag, hvað þá meðmæli með okkar umgengni.

Undanfarin ár hefur nýr flötur afhjúpast í umræðum um áhrif plasts á umhverfið, þ.e. á lífverur. Það er einmitt örplastið sem ég minntist á áðan. Öragnir og stærri stykki lenda í blóðrás eða meltingarfærum dýra, jafnvel okkar sjálfra. Það dylst heldur engum að plasthlutir sem lenda utan um dýr, t.d. plastborðar eða drauganet úr næloni, draga mikið af lífverum til dauða. Nú er svo komið að í desember 2015, fyrir tveimur árum, samþykkti öldungadeild bandaríska þingsins bann við notkun örefna úr plasti í snyrtivörur. Það er dæmigert tímanna tákn og er kannski ekki stór framför, en ákvörðunin er samt gleðileg. 1,4 trilljónir plastagna berast ekki lengur í vatnsföll og strandsjó þess lands ár hvert.

Annað er í þessu. Efnamengun frá plasti er talin jafn alvarleg eða jafnvel alvarlegri en örefna- eða öragnamengun. Ég ætla ekki að ræða þá efnafræði hér í bili, geri það ef til vill síðar.

Þessi stutti fyrirlestur héðan úr ræðustól Alþingis minnir okkur á að árabil plastsóunar og hundruð milljóna tonna sóðaskapar um allar jarðir og úti á sjó á að vera liðin tíð. Þingsályktunartillagan er dálítið skref í rétta átt. Hana ber auðvitað að samþykkja. Hún minnir okkur á að við höfum verk að vinna þegar kemur að notkun plasts og plastmengun á heimsvísu.