148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[13:43]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn.

Flutningsmenn eru Jón Gunnarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Bergþór Ólason, Karl Gauti Hjaltason, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Ísleifsson, Óli Björn Kárason, Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason, Willum Þór Þórsson og Guðmundur Ingi Kristinsson.

Breytingarnar snúa að 1. og 2. mgr. 11. gr. laganna. 1. gr. frumvarpsins er sem sagt að 1. mgr. 11. gr. laganna orðist svo:

„Í sveitarstjórn skal fjöldi fulltrúa standa á oddatölu. Fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn skal ákveðinn í samþykkt skv. 9. gr. Skulu aðalmenn aldrei vera færri en fimm. Þar sem íbúar sveitarfélags eru færri en 2.000 skulu aðalmenn ekki vera fleiri en sjö.

b. Orðin „eða fjölga“ og orðin „hærri eða“ í 1. málslið 2. mgr. falla brott.“

Síðan er mælt fyrir um að þessi lög öðlist þegar gildi.

Í greinargerð segir:

Sveitarfélög eru stjórnvöld og falla þar með í flokk handhafa framkvæmdarvalds samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar. Sveitarfélögin eru því hluti af stjórnsýslukerfinu og ber að fylgja almennum reglum sem gilda um starfsemi stjórnvalda og framkvæmd stjórnsýslu. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar skulu sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Með þessu orðalagi, að þau ráði sjálf málefnum sínum, er vísað til sjálfstjórnar sveitarfélaga. Í sjálfstjórn sveitarfélaga felst m.a. að íbúar sveitarfélags hafi lýðræðislegan rétt til að kjósa stjórn sveitarfélagsins í almennum kosningum.

Kveðið er á um fjölda sveitarstjórnarmanna í 1. mgr. 11. gr. sveitarstjórnarlaga. Gildandi lagaákvæði hefur þannig áhrif á fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum. Mikilvægt er að standa vörð um sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga og tryggja að sú lýðræðislega hugsun sem býr að baki sveitarstjórnarstiginu og reglum um kosningar til sveitarstjórnar, að sveitarstjórnarfulltrúar séu fulltrúar íbúa sveitarfélagsins, endurspegli á virkan hátt vilja íbúanna.

Hugmyndafræðilegur grundvöllur 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar er að tryggja rétt íbúa á staðbundnum svæðum til að ráða sjálfir tilteknum málefnum án afskipta ríkisvaldsins. Því telja flutningsmenn frumvarps þessa að sveitarfélög geti sjálf ráðið fjölda aðalmanna í sveitarstjórn. Hafa beri eftirfarandi í huga, eins og fram kom í athugasemdum við 2. mgr. 11. gr. í greinargerð frumvarpsins sem varð að gildandi sveitarstjórnarlögum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er þó einnig að hafa í huga að það stjórnskipulag sem frumvarpið gerir ráð fyrir að gildi um starfsemi sveitarfélaga gerir ekki ráð fyrir mjög stórum sveitarstjórnum enda byggt á því að sveitarstjórnin sjálf taki allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur og stjórnsýslu sveitarfélagsins og beri á þeim ábyrgð.“

Verði frumvarp þetta að lögum verður sveitarstjórnum í sjálfsvald sett að ákveða fjölda aðalmanna í sveitarstjórn í samþykktum sínum innan þeirra einu marka að fulltrúarnir verði aldrei færri en fimm og ekki fleiri en sjö þar sem íbúar sveitarfélags eru færri en 2.000. Breytingarnar sem lagðar eru til á 2. mgr. 11. gr. laganna skýrast af því að verði frumvarpið að lögum verður sveitarfélagi aldrei skylt að fjölga fulltrúum í sveitarstjórn þótt íbúafjöldi taki breytingum.

Þá má nefna að sveitarfélögin hafa sjálfstæða tekjustofna og fjárveitingavald innan ramma laga, samanber 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Tekjur sveitarfélaga og svigrúm til að nýta þær eru lykilþættir þegar litið er til þess hvað sveitarfélögin geta tekið sér fyrir hendur sjálf, þ.e. að eigin frumkvæði, eins og t.d. að ákvarða fjölda aðalmanna í sveitarstjórn. Hafa ber hugfast að frumvarpi þessu er ekki ætlað að hafa áhrif á hvort sveitarfélög fjölgi fulltrúum fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar eður ei. Fjárhagsleg áhrif ákvæða frumvarpsins á ríkissjóð eru engin.

Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, mál sem ég gerði sem sveitarstjórnarráðherra tvær tilraunir til að koma með inn í þingið og fá afgreitt á síðasta ári. Það var, má segja, fyrir andstöðu sérstaklega í einum samstarfsflokki, jafnvel þeim báðum, í þáverandi ríkisstjórn sem það tókst ekki á vorþingi. Þingmenn Viðreisnar stóðu gegn því að afgreiða málið inn til þingsins í nokkuð langan tíma. Það vekur athygli í ljósi þess að sá flokkur hefur verið að reyna að merkja sig sem flokkur frelsis og er þetta í fullu samræmi við þann málflutning.

Í aðdraganda þessa máls leitaði ég eftir meðflutningsmönnum hjá öllum flokkum í þessu máli. Það eru hér flutningsmenn ásamt Sjálfstæðismönnum úr flokki Framsóknar, Miðflokki og Flokki fólksins. Saman mynda þessir flokkar meiri hluta hér í þinginu og ef hugur fylgir máli hjá öðrum þingmönnum þessara flokka mælir ekkert gegn því að taka þetta mál til umfjöllunar og ljúka því.

Ég tel reyndar að málsmeðferðin þurfi ekki að vera löng. Þetta mál hefur áður farið í umsagnarferli. Það eru í raun mjög fáir aðilar sem þurfa að gefa umsagnir um það. Þetta liggur svo í augum uppi. Ég veit ekki til þess að innan sveitarfélaganna sé nein andstaða við þessa breytingu, heldur sé miklu frekar jákvætt tekið í þetta mál almennt séð.

Það vekur athygli að enginn þingmaður Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata eða Viðreisnar skuli geta hugsað sér að vera á þessu máli þar sem við erum í raun bara að færa valdið til sveitarfélaganna, til íbúanna sjálfra. Það sé algjört gagnsæi í því hversu margir sveitarstjórnarfulltrúar eru í viðkomandi sveitarstjórn. Það hlýtur að vera óeðlilegt að Alþingi hlutist til um það nema að því leyti einu að tryggja a.m.k. lágmarksfjölda til þess að ekki geti tiltölulega fámennur hópur stýrt sveitarfélagi, það sé þó tryggt að lágmarksmöguleiki sé á því þannig að öllum sjónarmiðum sé haldið til haga.

Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt. Því fylgir auðvitað sú reynsla sem við sjáum. Sú þróun þarf að eiga sér stað að við þurfum að gera störf sveitarstjórnarfulltrúa öflugri en þau eru í dag. Það gerist m.a. með því að fækka víða í sveitarstjórnum en geta á sama tíma greitt hærri laun fyrir þessi störf. Það kemur heim og saman við að full ástæða sé til þess að skoða frekari sameiningar sveitarfélaga út um allt land. Ef ég man rétt eru þau 72 í dag, hefur fækkað umtalsvert, en betur má ef duga skal.

Nú er staðan þannig að eftir síðustu kosningar til sveitarstjórna árið 2014 varð endurnýjun á um 53% sveitarstjórnarfulltrúa, ef ég man rétt. Það stefnir í það núna fyrir þessar kosningar að endurnýjunin verði allt að 60%. Við höfum upplifað það á Alþingi sem höfum verið hér í nokkurn tíma hvaða áhrif sú mikla og róttæka endurnýjun hefur haft sem átt hefur sér stað í þinginu. Ég tel reyndar að það hafi háð þinginu, það gefur enda augaleið að þótt alltaf sé gott að fá nýtt fólk til starfa og fá ferskar og góðar hugmyndir inn, þá er auðvitað mikilvægt að sú reynsla sem skapast hefur skuli fara forgörðum þegar fólk hverfur á braut.

Það gefur augaleið að þegar helmingur sveitarstjórnarfulltrúa hvarf á braut við síðustu sveitarstjórnarkosningar þá hvarf líka í burtu mikil reynsla. Þegar 60% síðan fara burtu núna, það stefnir í það í komandi kosningum, sjáum við að það er eitthvað að í kerfinu. Ef nánar er rýnt í þær kannanir sem gerðar hafa verið á þessu kemur í ljós að konur endast miklu síður í þessum störfum. Það er sem sagt mjög algengt að konur endist ekki nema eitt kjörtímabil í sveitarstjórnarstörfum úti um land. Það er bagalegt og gengur ekki upp. Það segir okkur að það fyrirkomulag sem er fyrir hendi er verulega til þess fallið að draga úr möguleikum kvenna til þátttöku í pólitík á sveitarstjórnarstiginu.

Margir sveitarstjórnarfulltrúar úti um allt land segja að dýrasta hobbíið sem þeir taki þátt í sé að vera í sveitarstjórn síns sveitarfélags. Það gefur augaleið að fámenn sveitarfélög geta ekki greitt miklar þóknanir fyrir þessi mikilvægu störf. Það er því enn frekar ástæða til að horfa til þess að það sé í sjálfsvald sveitarfélaganna sett hver fjöldi sveitarstjórnarfulltrúa á að vera á hverjum stað. Menn geti hagað því svolítið eftir því hvernig þeir vilja gera, vegna þess að færri sveitarstjórnarfulltrúar gera það að verkum að það er þá væntanlega hægt að borga þeim betur til þess að sinna störfum sínum betur og gera þar með fleirum kleift að taka þátt í þessum mikilvægu störfum.

Í mínum huga er það sjálfsagt mál. Í mínum huga var það inngrip í sjálfstæði sveitarfélaganna þegar þau lög voru sett sem hér eru til umfjöllunar eða breytingin sem gerð var á þeim gerð árið 2012, sem kemur m.a. fram í því að fyrir borgarstjórnarkosningar í vor mun þurfa að fjölga borgarfulltrúum mjög mikið. Um það eru deildar pólitískar skoðanir meðal borgarfulltrúa. Meiri hlutinn sem nú er í borginni samþykkti að fjölga borgarfulltrúum á meðan minni hlutinn lagðist gegn því. Í skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið er yfirgnæfandi meiri hluti borgarbúa á móti því að fjölga borgarfulltrúum.

Ég tel rétt að pólitískir fulltrúar, t.d. í höfuðborginni fyrir komandi kosningar, beri á því ábyrgð gagnvart sínum kjósendum hvort fjölgað verði í þessum störfum, vegna þess að þegar upp er staðið eru það skattpeningar borgarbúa sem munu verða notaðir til að greiða fyrir þau auknu útgjöld.

Ég geri mér vonir um, og ég veit að meðflutningsmenn mínir eru mér sammála um það, að þetta mál verði afgreitt fljótt í gegnum nefndina. Ekki er efni til þess að dvelja lengi við málsmeðferðarvinnu í þinglegri meðferð vegna þess að málið hefur áður komið til nefndar, umsagnir hafa verið veittar og voru þær almennt jákvæðar. Umræðan er almennt jákvæð gagnvart þessu máli. Til þess að það geti haft áhrif á komandi sveitarstjórnarkosningar er nauðsynlegt að þingið starfi vel og klári þetta mál. Ég held að sé líka hollt fyrir umræðuna að það komi a.m.k. til umræðu hér og til atkvæðagreiðslu í þinginu.

Virðulegi forseti. Ég hlakka vissulega til þeirrar afgreiðslu og legg til að málinu verði nú vísað til umhverfis- og samgöngunefndar þingsins.