148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[13:58]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við gerð frumvarpsins á vegum sveitarstjórnarráðuneytisins í fyrra var að sjálfsögðu haft samráð við m.a. Samband íslenskra sveitarfélaga. Málið fór í þinglega meðferð. Það komu umsagnir m.a. frá þeim og Reykjavíkurborg. Það voru teknir ef ég man rétt fundir með tveimur aðilum, fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúa Reykjavíkurborgar.

Eins og ég sagði áðan voru það kannski fyrst og fremst samstarfsflokkar okkar í ríkisstjórn á þeim tíma, Viðreisn og Björt framtíð, sem stóðu í vegi fyrir því að málið fengi afgreiðslu á vorþingi. Það er áhugi á þessu máli. Þetta er umdeild ákvörðun. Hún var það á sínum tíma, mjög umdeild. Ég tel, eins og segir í frumvarpinu, að því sé ekki ætlað að leggja línur að öðru leyti um þetta lágmark og hámark sem um getur varðandi 2.000 íbúa markið, en ég tel að það gefi augaleið að það sé eðlilegt að sveitarstjórnirnar hafi sjálfar ábyrgð á því að taka þessa ákvörðun. Þær hafa tíma til þess fyrir komandi kosningar.