148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:01]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér endurspeglast sá grundvallarskoðanamunur sem er á milli mín og þingmanna í sumum öðrum flokkum um hvar þetta ákvörðunarvald eigi að liggja. Ég held að það væri kannski eðlilegra að þeir hv. þingmenn sem vilja leggja stein í götu þess að færa sveitarstjórnunum að nýju þetta vald og reyndar að útfæra það með þeim hætti að það sé svo gott sem algjörlega í valdi viðkomandi sveitarfélaga að taka þessar ákvarðanir, íbúanna sjálfra — þessir þingmenn eru fulltrúar þeirra flokka sem tala hæst um að það eigi að vera sem mest íbúalýðræði og mest samráð við íbúana í landinu sem hér standa og segja að það sé ekkert hægt að gera þetta.

Þetta var umdeilt mál. Þetta atriði var umdeilt á sínum tíma. Það er enn pólitískt umdeilt. Skoðun Sjálfstæðismanna hefur ekkert breyst. Það var komið í veg fyrir að þetta mál fengi afgreiðslu á síðasta ári. Frelsisflokkarnir Viðreisn og Píratar styðja ekki þetta (Forseti hringir.) augljósa frelsismál þar sem valdið er fært til sveitarfélaganna, til fólksins. Það kemur mér á óvart. (Forseti hringir.)Ég legg til að þingið hristi af sér slyðruorðið í þessum málum (Forseti hringir.) og ljúki þessu.