148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:05]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Núna er kannski rétt að benda á að sveitarstjórn var í höndum Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, þar sem er einmitt sérstakt ákvæði í lögum um að heimila hærra hámarksútsvar vegna þess hversu illa þeir fóru með fjármálin. Þá má einnig nefna að í ljósi þess sem hv. þingmaður sagði um að ekki ætti að skipta út sveitarstjórnarfólki stendur Sjálfstæðisflokkurinn einmitt í því núna að skipta út öllu sínu sveitarstjórnarfólki í Reykjavíkurborg fyrir næstu kosningar.

Allt í góðu. Nú svaraði hv. þingmaður ekki einni einustu spurningu sem ég spurði um hvernig þetta væri ekki lýðræðishalli, hvernig þetta væri ekki til þess gert að rýra möguleika fólks á að fá sveitarstjórnarfulltrúa sinn, jafnvel þótt þeir væru í 40.000 manna sveitarfélagi með fimm sveitarstjórnarfulltrúa samkvæmt þessu frumvarpi sem væri þá möguleiki, kannski ekki líklegt, en algjörlega mögulegt. Væri ekki einmitt málið að fjölga sveitarstjórnarfulltrúum frekar þannig að þá hefðu fleiri lýðræðisaðkomu?

Ég spyr líka að lokum: (Forseti hringir.) Ef þetta er svona gott frumvarp, hvers vegna í ósköpunum er þá núverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ekki treystandi til að leggja það fram?