148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:08]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það var margt athyglisvert sem kom fram í ræðu hv. þingmanns. Hann fór yfir forsögu málsins og fróðlegt að heyra að Viðreisn er honum mjög hugleikin í kringum þetta mál. Það er alveg hárrétt hjá fyrrverandi ráðherra, núverandi þingmanni, að á sínum tíma lagðist Viðreisn gegn þessu máli, m.a. vegna þess að það var of seint fram komið.

Mig langar til þess að rifja upp fyrir hv. þingmanni ummæli hans frá umræðu um þetta þegar hann var spurður um það hvort einhver andstaða væri við málið. Með leyfi forseta, þá segir hann:

„Þetta er auðvitað ríkisstjórnarmál, hefur fengið afgreiðslu í öllum þingflokkum. Það má vel vera að það séu fyrirvarar við eitthvað í því einhvers staðar, ég hef ekki upplýsingar um það.“

Þetta sagði þingmaðurinn eftir að hafa setið fund með undirrituðum þar sem voru settir mjög alvarlegir fyrirvarar við málið, þannig að hann fór einfaldlega með rangt mál á sínum tíma.