148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:10]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má vel vera og ég biðst velvirðingar á því ef ég hef ekki gert mikið úr ágreiningi milli mín og samstarfsflokka í ríkisstjórn á þessum tíma. Það hefur eflaust verið til þess að viðhalda góðum starfsanda. Gott og vel.

Það voru ekki rökin sem mér voru gefin á þeim tíma af hálfu samstarfsflokkanna að málið væri of seint fram komið. Það beið ef ég man rétt í fjórar vikur eða eitthvað slíkt inni í þingflokki Viðreisnar eftir að búið var að afgreiða það út úr ríkisstjórn. Fjórar vikur. Það er mjög sérstakt þegar um er að ræða mál sem fara í gegnum ríkisstjórn án athugasemda. Það er eflaust það sem ég hef verið að vitna í. Þar voru ekki gerðar athugasemdir við þetta nema sagt er frá því að það gætu verið fyrirvarar hjá einstaka þingmönnum.

Já, Viðreisn er mér ofarlega í huga þessa dagana, það er vegna þeirra mála sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt frumkvæði að því að flytja hér á þingi eins og lög um að afnema (Forseti hringir.) einkaverslun á áfengi, lög um mannanafnanefnd o.s.frv. Ég sagði nú við þingmenn Viðreisnar um daginn að (Forseti hringir.) hver vegur að heiman væri vegurinn heim, ég myndi gjarnan vilja fá þau í hús aftur, þetta væri tómur misskilningur.