148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:16]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mjög umdeilt hvaða kostnaður er samfara þessu. Meiri hlutinn í Reykjavík hefur lagt fram einhverja útreikninga. Það er sérsvið þeirra að leggja fram útreikninga sem eru í mörgum tilfellum mjög villandi. Það er mjög áhugavert að heyra fulltrúa Pírata hrósa fjárhag Reykjavíkurborgar. Ég held að menn ættu að kafa svolítið betur ofan í þann málflutning og sjá hvað stendur þar að baki. Mikilvægt er að allt komi upp á borðið nú í aðdraganda kosninga enda hefur staðan þar undanfarið verið alvarlegri en í mörgum öðrum sveitarfélögum í landinu.

Aðalatriðið er, virðulegur forseti, að menn geta farið hér í alls konar æfingar um að réttlæta að þessi fjölgun eigi sér stað núna og að hægt sé að taka málið upp seinna o.s.frv. Það er skoðun sem liggur til grundvallar þessu máli um að þessir flokkar telji sig eiga betri kost á því að ná inn fulltrúum í yfirstjórn Reykjavíkurborgar ef fulltrúum er fjölgað. Um það snýst þetta mál. Að öðrum kosti myndu þessir flokkar ekki leggja stein í götu þess að færa þetta frelsi (Forseti hringir.) til íbúanna, til kjörinna fulltrúa sjálfra, (Forseti hringir.) og þeir beri þannig pólitíska ábyrgð á þessu sjálfir. Þeir treysta sér ekki til þess.

(Forseti (JÞÓ): Forseti vill aftur árétta að þingmenn virði ræðutíma.)