148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:20]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Það er fátt sem segir mér jafn skilmerkilega hversu sértækt þetta mál er og sú mikla umræða sem fór hér fram, bæði í andsvörum og í ræðu hv. flutningsmanns, Jóns Gunnarssonar, um Reykjavík, allt frá fjárhagslegri stöðu borgarsjóðs sem hv. þm. Jón Gunnarsson dró inn í umræðuna að eigin frumkvæði yfir í fjölda borgarfulltrúa, yfir í það að ræða um einstaka flokka þar og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er einfaldlega mál sem lagt er hér fram sem beinist að einu sveitarfélagi á landinu. Vissulega hefur það áhrif á þau öll, umræðan sýnir það og við erum ekki sprottin upp úr tóminu einu saman. Við áttum samræður um þessi mál í fyrra þegar hv. þm. Jón Gunnarsson var hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála og lagði þetta fram sem stjórnarfrumvarp eins og hann sjálfur vitnaði til áðan.

Hv. þingmaður vísaði sjálfur til þess í sínum orðum að ekki væri þörf á mikilli yfirlegu í þinginu um þetta mál þar sem vinna hefði farið fram, það hefði komið fram í fyrra, á þarsíðasta þingi, það hefði farið til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og verið sent til umsagnar og það ætti að geta farið fljótt í gegnum nefnd, við þyrftum ekki að dvelja við þinglega meðferð og þá langar mig að rifja upp tillöguna frá því í fyrra og bera hana saman við tillöguna núna. Sama tillaga, segir hv. þm. Jón Gunnarsson. Tillagan í fyrra hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„1. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 11. gr. laganna:

a. 4. tölul. orðast svo: Þar sem íbúar eru 50.000 eða fleiri: 15–27 aðalmenn.

b. 5. tölul. fellur brott.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Þetta er öll tillagan frá því í fyrra, virðulegur forseti, og það þarf ekki mikinn textaskilning til að sjá að þetta er allt önnur tillaga en sú sem lögð er fram hér nú sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. gr. Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:

a. 1. mgr. orðast svo:

Í sveitarstjórn skal fjöldi fulltrúa standa á oddatölu. Fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn skal ákveðinn í samþykkt skv. 9. gr. Skulu aðalmenn aldrei vera færri en fimm. Þar sem íbúar sveitarfélags eru færri en 2.000 skulu aðalmenn ekki vera fleiri en sjö.

b. Orðin „eða fjölga“ og orðin „hærri eða“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.“

Það er vissulega rétt hjá hv. flutningsmanni að 2. gr. fyrra og síðara frumvarpsins er eins, „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ en ég hygg að við hv. þingmaður séum sammála um að það séu kannski ekki næg líkindi til þess að hægt sé að taka umsagnir um frumvarpið frá því í fyrra sem gildar um þetta frumvarp. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hvergi í frumvarpinu frá því í fyrra var minnst á að aðalmenn skyldu ekki vera færri en fimm, hvergi var minnst á að skyldi sett þak af hálfu ríkisins, miðstjórnarlegt þak, á lýðræðislegan rétt fulltrúa sveitarfélaga með undir 2.000 íbúum um að þau mættu ekki hafa fleiri aðalmenn en sjö.

Ég vona að hv. framsögumaður leiðrétti mig ef ég hef rangt fyrir mér en mér vitanlega hefur enginn sent hv. umhverfis- og samgöngunefnd umsögn um það. Hins vegar hafa margir sent umsagnir um það hvort eigi að breyta því þannig að sveitarfélög með fleiri en 50.000 íbúa megi hafa á milli 15 og 27 aðalmenn.

Við erum hér á byrjunarreit hvað varðar efnisinnihald þessa frumvarps og það er ljóst að fara þarf í þinglega vinnu og meðferð hér eins og öll önnur frumvörp og kannski enn frekar af því að þetta mál snýst um lýðræðið sem okkur öllum er hugleikið. Það þarf að vanda til verka og fá umsagnir á þessu frumvarpi en ekki styðjast við umsagnir um frumvarp sem hljómar allt öðruvísi og er um allt annað.

Virðulegur forseti. Ég tók það fram að þessu frumvarpi væri beint gegn einu sveitarfélagi. Það er akkúrat málið en núna er það sett þannig fram að það er ekki eins auðsætt að þannig er. Það var gert í fyrra þar sem var beinlínis talað um 50.000 íbúamarkið.

Nú getur vel verið að það sé skoðun okkar margra hér inni, ég veit það ekki, ætla ekki að tala fyrir hönd annarra alþingismanna, að efni þessa frumvarps sé fínt, það sé kannski allt í lagi að sveitarfélögin ákveði þetta sjálf, að ríkisvaldið eigi ekki að koma með boðvald um hversu margir fulltrúar eigi að vera á hverja þúsund íbúa í sveitarfélögum. Ég veit það ekki, en það er þá vinna sem við þurfum að fara í. Það er ekki eitthvað sem við hristum fram úr erminni örskömmu fyrir sveitarstjórnarkosningar.

Það sem við þó vitum, virðulegi forseti, er að fyrir örfáum árum fór fram umfangsmikil vinna um akkúrat þessi mál, heildarendurskoðun á sveitarstjórnarlögum. Það var 2011, man ég það ekki rétt, virðulegur forseti? Þá var fundað með fulltrúum ráðuneytis, fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, það var skipaður starfshópur ef ég man rétt, sérstaklega um að ákveða hversu margir fulltrúar ættu að vera í sveitarstjórn miðað við fjölda íbúa. Starfshópurinn skilaði niðurstöðu og sátt náðist um málið. Sett var upp tafla — X margir íbúar, X margir fulltrúar, næsta bil 10.000 eða 11.000 ef ég man rétt, þá fjölgar þeim o.s.frv.

Þetta var fagleg vinna. Ef okkur finnst að niðurstaða þeirrar vinnu sé ekki rétt skulum við ekki kippa henni úr sambandi með því að henda hér inn tillögu rétt fyrir kosningar og samþykkja hana. Við skulum bara fara aftur í þessa faglegu vinnu. Tölum við öll sveitarfélögin. Er alveg víst að öll sveitarfélög undir 2.000 íbúum séu sátt við að mega ekki hafa fleiri en sjö fulltrúa í sveitarstjórn? Af hverju vill hv. þm. Jón Gunnarsson ekki að þau sveitarfélög sem eru með 1.537 íbúa hafi níu fulltrúa? Af hverju virðir hann ekki sjálfsákvörðunarrétt þeirra sveitarfélaga til þess? Hv. þm. Smári McCarthy spurði hv. flutningsmann um það, en það varð fátt um svör.

Við getum sett þetta hérna fram, virðulegur forseti, í einhver hefðbundin skot um lýðræðisást og skort á henni og þingmenn þessara flokka séu svona eða hinsegin. Við komumst ekkert áfram í málinu með það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það eru bara einhverjar hefðbundnar pólitískar skylmingar.

Ég væri virkilega til í að vita af hverju hv. flutningsmaður Jón Gunnarsson og aðrir meðflutningsmenn telja skynsamlegt að kippa úr sambandi þessari miklu og faglegu vinnu sem fór fram á milli stjórnsýslustiga, ríkisvalds og sveitarfélaga, í gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga og ekki bara í gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga, heldur einstök sveitarfélög. Af hverju ætlum við að segja núna að það sé reyndar ekkert að marka þessa vinnu af því að við erum búin að skipta um skoðun og við ætlum ekki að gera það á sama hátt og við komumst að hinni niðurstöðunni, heldur ætlum við bara að gera það svona í framhjáhlaupi rétt fyrir kosningar?

Ég veit ekki hvort hv. flutningsmaður veit af því að undirbúningur framboða er hafinn fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Er ekki fundur í Valhöll í kvöld? Vita fulltrúar sem þar eru að fara að taka sæti á lista að ætlunin er að fjölga ekki borgarstjórnarfulltrúum? Þurfum við ekki að fá umsagnir frá þeim sem taka sæti á lista í þeirri trú að það sé verið að kjósa um 23 borgarfulltrúa en síðan breytum við lögunum eftir á þannig að kannski verði ekki kosið um nema 15? Ég veit það ekki.

Ég veit samt að við eigum að stíga varlega til jarðar þegar kemur að því að breyta samkomulagi sem unnið hefur verið að faglega. Þar á flokkapólitík aldrei að koma inn í. Samband mismunandi stjórnsýslustiga er viðkvæmt. Við sem getum sett hinu stjórnsýslustiginu lög eigum að vanda okkur alveg sérstaklega. Þegar verið hefur vandað samráð eins og var eigum við að vanda okkur enn frekar og ekki kippa því úr sambandi sem ég fullyrði að sé einfaldlega út frá einhverjum pólitískum hagsmunum en snúist ekki um virðingu fyrir sveitarstjórnarstigi.

Gott og vel, ég er talsmaður þess að við leggjum fram öll þau mál sem okkur hugnast. Það er bara fínt að fá þetta mál, þetta er skoðun flutningsmanna þessa frumvarps og það er bara fínt að fá það, en ég er ekki talsmaður þess að við köstum til höndunum þegar kemur að vinnu Alþingis. Ég er talsmaður þess að við vöndum vel til verka þannig að ég treysti því að þegar hv. umhverfis- og samgöngunefnd tekur þetta mál til umfjöllunar hefjist hefðbundin meðferð, að fá umsagnir sveitarfélaga. Listinn er til, þetta var sent út í fyrra. Síðan fjallar hv. nefnd um þetta mál eins og önnur mál af sömu vandvirkni og við viljum að Alþingi sé þekkt fyrir.