148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:38]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að játa að mér finnst hv. þingmaður vera í mótsögn við sjálfan sig. Sama hvað okkur finnst almennt um meðferð á almannafé þá er erfitt að segja annað en það að ef við segjum við sveitarfélög sem eru undir 2.000 íbúum: Þið megið ekki hafa fleiri en sjö fulltrúa, þá er ríkisvaldið að skipta sér af ákvörðunum sveitarfélaga.

Hv. þingmaður er meðflutningsmaður og stendur með þessu frumvarpi og þessi tillaga er, öfugt við lögin núna, ekki unnin í neinu samráði við sveitarfélögin sjálf. Hér væri Alþingi algjörlega upp á eigin spýtur að hafa áhrif á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga.

Talandi um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga, vinnan sem fór fram fyrir nokkrum árum var til fyrirmyndar. Af því að þar settust menn niður, hlustuðu á sjónarmið hver annars, skipuðu starfshópa og það var ekki verið að þvinga einn eða neinn til neins. Menn unnu saman að niðurstöðu. Hér er hins vegar verið að þvinga sveitarfélögin, í tillögu hv. þingmanns sem um leið talar um að ríkisvaldið eigi ekki að hafa áhrif á sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Virðulegur forseti verður að fyrirgefa, en ég fæ þetta ekki til að koma heim og saman. Það er ekki bæði hægt að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og ætla um leið að taka sjálfsákvörðunarréttinn af þeim.

Hvað varðar meðferð á almannafé þá er það allt önnur umræða. Þetta var niðurstaðan. Borgarfulltrúar í Reykjavík, ef við tökum það sem dæmi af því að það er nú það sem liggur hérna undir, eru 15 en þingmenn Reykjavíkur eru 22. Er það eðlileg meðferð á almannafé? Eigum við ekki að fækka þingmönnum Reykvíkinga í 15 eða eigum við að fjölga fulltrúum í Reykjavík? Er það bara þannig að það skiptir engu máli hvað íbúum Reykjavíkur fjölgar, það þarf aldrei að fjölga borgarfulltrúum? Eða eigum við kannski bara að hlusta á það sem sveitarfélögin sögðu í vinnunni og fara eftir því en reyna ekki að troða þessu ofan í þau, án samráðs?