148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:45]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú kannski fullmikið í lagt að segja að fara þurfi í heildarendurskoðun á sveitarstjórnarlögunum til þess að takast á við þetta atriði. Enda felur það frumvarp sem hér um ræðir ekki í sér að verið sé að leggja neina niðurstöðu á borðið. Þar er einfaldlega sagt: Hver sveitarstjórn fyrir sig, þar sem þetta er raunhæft viðfangsefni, getur tekið ákvörðun um það sjálf að fara í þá fjölgun sem þarna er gert ráð fyrir. (Gripið fram í.) Þetta er alla vega veruleg rýmkun frá því sem nú er þar sem þetta er miklu bundnara en frumvarpið felur í sér.

Í tilviki hvort sem er Reykjavíkur, Garðabæjar, Mosfellsbæjar eða hvaða sveitarfélags sem er er með þessu frumvarpi ekki verið að segja mönnum hver niðurstaðan eigi að vera. Það er bara verið að segja: Þið getið ákveðið það sjálf hvort þið viljið fjölga um tvo borgarfulltrúa, tvo bæjarfulltrúa eða sex bæjarfulltrúa eða átta eða hvernig sem það er, þið getið tekið þá ákvörðun sjálf. En ekki er sagt hver niðurstaðan eigi að vera.

Ég held að það sé alveg ástæðulaust að gera of mikið drama úr þessu hvað það varðar. Ef borgarstjórn Reykjavíkur hefði sjálf fullkomið svigrúm til þess að taka ákvörðun um niðurstöðuna í þessum efnum býst ég við að meiri hlutinn þar myndi komast að sömu niðurstöðu og hann hefur þegar gert á grundvelli núgildandi laga, þ.e. að fara í fjölgun upp í 23. Að því leyti myndi þetta ekki breyta miklu í raun. Ég veit ekki um önnur sveitarfélög sem hugsanlega hafa færst upp um flokka, hvort þau myndu nýta sér heimild til þess að fjölga um tvo bæjarfulltrúa eða ekki, enda finnst mér það ekki varða mig sem þingmann. Mér finnst bara rétt að stjórnvaldið sem stendur frammi fyrir kjósendum, sínum eigin umbjóðendum, eigi að hafa bæði völina og kvölina, ef svo má segja, af því að taka ákvarðanir af þessu tagi.