148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[15:31]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem orðið hefur um þetta mál og fagna þeim stuðningi sem fram hefur komið hjá mörgum þingmönnum við það. Ég sé að nokkuð breið samstaða á að geta náðst um að afgreiða það, jafnvel með breytingartillögum, á þessu þingi þannig að það hafi áhrif fyrir kosningar í vor og ákvörðunarvaldið verði þar með flutt formlega til þeirra sitjandi sveitarstjórnarmanna sem nú eru.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft „Báknið burt“ að kjörorði. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að okkur hefur orðið allt of lítið ágengt í því á undanförnum árum þótt vissulega hafi mál þróast á þann veg að rekstur ríkisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hefur dregist umtalsvert saman. Það er í sjálfu sér ekki viðmið sem við eigum endilega að nota heldur eigum við miklu frekar að skoða í sameiningu hvaða verkefnum við getum sameinast um að koma frá ríkinu til hins almenna vinnumarkaðar, og að lokum í einhverjum tilfellum til sveitarfélaganna líka, verkefnum sem ættu betur heima í nærumhverfinu.

Ég held að ég hafi verið eini ráðherrann í síðustu ríkisstjórn, sem við hv. þingmaður sátum saman í, sem hafði með formlegum hætti hafið úttekt á öllum þeim undirstofnunum sem undir ráðuneyti mitt heyrðu, einmitt í þeim tilgangi að draga úr umsvifum þeirra stofnana sem þar heyrðu undir. Mér vannst ekki tími til þess að ganga alla leið í þeim efnum, eins og við þekkjum. En vinnan liggur fyrir og getur skilað sér áfram ef vilji er til að halda henni áfram.

Ég vil gera athugasemdir við það sem hér kom fram, að þetta sé flutt af lítilsvirðingu gagnvart fámennari framboðum. Ég tek undir þau sjónarmið að tryggja þurfi lýðræði innan sveitarfélaganna, íbúalýðræði, sem mest. Það eru margar leiðir fyrir sveitarstjórnir að nálgast það. Við höfum séð vaxandi vinnu í þá átt, með íbúafundum, íbúakosningum um verkefni úti í hverfum, úti í stærri sveitarfélögunum. Þetta höfum við séð auglýsingar um. Ég hef sjálfur mætt á svona fundi og held að þetta sé af hinu góða, þróun sem muni fara vaxandi.

Sveitarstjórnarkosningar eru ekkert annað en íbúakosningar og eru ágætur mælikvarði á það að gefa framboðum einkunn fyrir frammistöðu, kjósa þau eftir þeim áherslumálum sem þau eru með. Að því leyti þarf kannski ekki að halda sérstakar atkvæðagreiðslur um öll mál heldur er kosið á fjögurra ára fresti. Það er auðvitað mjög ríkt íbúalýðræði sem í því felst, mikið aðhald á þá sem eru kjörnir á hverjum tíma.

Í þessari umræðu hefur verið komið að tekjustofnum sveitarfélaga, að þeir eigi að vera sjálfstæðari. Það er ákveðið sjálfstæði í því nú þegar þegar kemur að því að leggja á svokallað útsvar eða þann skatt sem því fylgir. Þar hafa menn svigrúm — en það er þak. Ég tel ekki óeðlilegt að skattlagning í landinu sé bundin einhverju þaki, hvort sem það er á vettvangi sveitarstjórnarstigsins eða ríkisins. Þetta er gríðarlega stórt mál og það hefur verið keppikefli margra sveitarfélaga að haga rekstri sínum þannig að þau geti dregið úr álögum á íbúa, hagrætt í rekstri sínum svo að þau geti jafnvel boðið ódýrari þjónustu en gerist í öðrum sveitarfélögum, lægri gjöld fyrir leikskóla o.s.frv. Lengi má telja. Þarna er svigrúmið heilmikið fyrir sveitarfélögin til að bregðast við.

Ég fagna breytingartillögum um þetta mál sem ganga jafnvel lengra. Mér finnst fullt tilefni til að skoða allt slíkt með jákvæðum hætti en tel eftir sem áður að málsmeðferðin þurfi ekki að vera löng í þessu máli, það sé mikilvægt að Alþingi ljúki því sem fyrst svo að áhrif þess verði áþreifanleg í komandi sveitarstjórnarkosningum. Ég sé ekki neitt sem ætti að tefja það. Jafnvel þó að einhverjir hafi minnst á að ástæða sé til að kalla fulltrúa frá öllum sveitarfélögum í landinu til fundar við nefndina finnst mér fullmikið í lagt að reikna með að fulltrúar allra sveitarfélaga geti mætt á fund nefndarinnar á þessum vordögum. En klárlega þarf að gæta að öllum sjónarmiðum og fá línu frá sem flestum sveitarfélögum um afstöðu þeirra gagnvart þessu. Samband íslenskra sveitarfélaga er samstarfsvettvangur sveitarfélaganna. Þetta mál hefur verið rætt á þeim vettvangi sem endurspeglar oft ákveðna víðtæka samstöðu.

En auðvitað þarf að leita eftir öllum þessum sjónarmiðum og gefa þeim færi í þinglegri meðferð málsins á vegum nefndarinnar. Ég dreg ekkert undan í þeim efnum, frekar en vant er, en tel ekki að það þurfi að tefja málið svo að það komist ekki til afgreiðslu sem fyrst.