148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[15:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Grundvallarlýðræðisregla hjá Pírötum, sem er fyrsta reglan í grunnstefnunni okkar — nei, það er ekki fyrsta reglan, fyrsta reglan er sú að við eigum að taka vel upplýstar ákvarðanir, en það er fyrsta reglan í grunnkafla okkar um lýðræðismál að allir eigi rétt á að koma að ákvörðunum sem þá varða. Þetta hljómar mjög svipað í lýðræðisyfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Þá er að vísu verið að tala meira um þjóðríkin, en talað er um að rétt sé að almenningur sé sem næst stjórnvöldum eða þeim sem fara með valdið, að það sé farsælast hvað það varðar.

Nú man ég ekki eftir að hafa fengið — og ég var að reyna að leita að því — boð frá hv. þm. Jóni Gunnarssyni um að vera með á málinu. Það er mjög gott þegar verið er að færa vald nær fólkinu. Eitt sem þingmaðurinn áttar sig kannski ekki á er að ef aðkoma íbúa sveitarfélagsins er ekki tryggð beint að þessari ákvörðun, sem vissulega hefur áhrif á þá í þeirra lýðræðislegu ákvarðanatöku við að kjósa sína fulltrúa, er mjög auðvelt fyrir kjörna fulltrúa í sveitarfélaginu að misnota þessa breytingu; ef ekki er tryggt að ákvarðanir sveitarstjórna, um breytingar á fjölda fulltrúa, þurfi að samþykkja í íbúakosningum, þá er ég ekki að tala um kosningu til sveitarstjórna heldur íbúakosningu um það atriði sérstaklega.

Ég get nefnt dæmi. Fulltrúum í stjórn RÚV var fjölgað, þegar hv. þingmaður var í ríkisstjórn fyrir tveimur kjörtímabilum, úr sjö í níu og báðir þessir fulltrúar fóru til ríkisstjórnarflokkanna. Sveitarstjórnirnar geta því ákveðið, út frá því hvernig staða þeirra er, fylgið, að fjölga eða fækka þannig að stóru flokkarnir eða þeir sem eru við völd fái fleiri og hinir flokkarnir færri. Það yrði mikill lýðræðishalli.