148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

lágskattaríki.

192. mál
[16:08]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um lágskattaríki. Um er að ræða tillögu þar sem lagt er til að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp með eftirfarandi breytingum á lagareglum um lágskattaríki:

Í fyrsta lagi er lagt til skilgreining á lágskattaríki verði víkkuð út þannig að hún verði ekki bundin við svæði þar sem tekjuskattur af hagnaði aðila er lægri en tveir þriðju hlutar þess skatts sem hefði verið lagður á hér, samanber gildandi 2. mgr. 57. gr. a laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, heldur taki einnig til svæða sem að staðaldri veita íslenskum stjórnvöldum ekki nauðsynlegar upplýsingar fyrir framkvæmd skattalöggjafarinnar. Skattaskjól eru oft nýtt í þágu svokallaðs skattalegs hagræðis, en ekki síður til að fela eignir og tekjur. Eðlilegt er að skilgreining á lágskattaríki og þau réttaráhrif sem við hana eru bundin nái einnig til skattaskjóls sem eru nýtt í þeim tilgangi.

Í öðru lagi er lagt til að ráðherra birti leiðbeinandi lista fyrir ríki og lögsagnarumdæmi sem líkleg eru til að falla undir skilgreiningu á lágskattaríki. Áður var kveðið á um það í 7. mgr. 57. gr. a laga um tekjuskatt að ráðherra birti lista yfir lönd og svæði sem skattlagning samkvæmt greininni taki til. Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti slíkan lista í desember 2010 en, með leyfi forseta, „með þeim fyrirvara að hann [teldist] hvorki bindandi né tæmandi talinn þar sem endanlegt skatthlutfall þeirra félaga, sjóða og stofnana sem [hefðu] þar skattalega heimilisfesti, [lægi] ekki fyrir nema eftir nákvæma yfirferð skattyfirvalda“.

Fyrirmælin voru felld brott með lögum nr. 45/2013, með vísan til þess að listinn gæti ekki orðið bindandi eða tæmandi þar sem endanlegt skatthlutfall aðila lægi ekki fyrir fyrr en eftir yfirferð skattyfirvalda. Með tilliti til þessa er hér ekki lagt til að ráðherra birti endanlegan lista yfir lágskattaríki.

Ljóst er þó að sum svæði eru öllu líklegri en önnur til að falla að skilgreiningunni og gagnlegt er fyrir skattaðila og almenning að hafa upplýsingar um hver þau eru. Því er lagt til að ráðherra birti leiðbeinandi lista um þau.

Í þriðja lagi er lagt til að skattyfirvöldum skuli tilkynnt um beina og óbeina eignarhlutdeild í lögaðilum í lágskattaríkjum. Í 1. mgr. 90. gr. laga um tekjuskatt segir að í skattframtali skuli greina frá þeim atriðum sem máli skipta við skattálagningu, þar á meðal eignum, og eigendum lögaðila í lágskattaríkjum ber að skila með skattframtali sérstakri skýrslu, CFC-skýrslu, eigenda í lögaðila á lágskattasvæði. Í skattframtali er þó aðeins greint frá eignum í árslok. Með því að mæla fyrir um tilkynningarskyldu um beina og óbeina eignarhlutdeild í lögaðilum í lágskattaríki verður skattyfirvöldum auðveldað að gera sér grein fyrir stöðunni hverju sinni. Það ætti að auðvelda skatteftirlit sem er sérstaklega þýðingarmikið þegar kemur að lágskattaríkjum.

Í fjórða lagi er lagt til að greiða skuli sérstakt eftirlitsgjald í ríkissjóð vegna beinnar og óbeinnar eignarhlutdeildar í lögaðilum í lágskattaríkjum. Slíkri eignarhlutdeild fylgir óhjákvæmileg þörf á miklu og flóknu skatteftirliti. Eðlilegra er að viðkomandi aðilar standi undir kostnaði vegna þess en almennir skattgreiðendur.

Herra forseti. Þessi tillaga er náttúrlega ekki gripin úr lausu lofti. Nú höfum við á undanförnum árum þurft svolítið að glíma við það að eignir Íslendinga hafa oft verið settar inn í skattaskjól. Skattaskjól er rétta orðið, þó svo að við tölum hér um lágskattaríki sem er til samræmis við það hvernig þetta er orðað í núgildandi lögum. En auðvitað erum við ekki bara að tala um ríki þar sem skatthlutfallið er lágt. Það eru mörg ríki þar sem skatthlutfallið er jafnvel í hærra lagi en þar sem auðvelt er að fela eignir með þannig hætti að ekki er unnt fyrir skattyfirvöld og aðra að nálgast upplýsingar um það hvað sé að gerast, hver sé nákvæmlega eigandi og þar fram eftir götunum.

Hér er í rauninni um tillögu að ræða þar sem því er beint til ráðherra að laga þetta, að stuðla að því að við fáum þessar upplýsingar og að kostnaðurinn sjálfur við eftirlitið með þeim aðilum sem eiga þessar eignir í skattaskjólum verði borinn af þeim einstaklingum sem kjósa mjög vísvitandi, alltaf að yfirlögðu ráði, alltaf með fullri vitneskju af sinni hálfu vegna þess að þeir skrifa jú undir stofnskjöl og annað slíkt, að fara með eignir sínar og jafnvel fé til landa þar sem þeir komast upp með að borga ekki eðlilega skatthlutdeild á Íslandi eða annars staðar í því sem væri kannski hægt að kalla hinn siðmenntaða heim. Þó vil ég ekki meina að lönd séu endilega ósiðmenntuð þótt þau séu með lægri skatta, en það er ákveðin tilhneiging til þess að vilja bregða sér undan þeim löndum þar sem eru kannski ríkari efnahagsumsvif og eðlilegri háttur á allri ríkisþjónustu.

Þetta er afskaplega lítil breyting og er í rauninni ekki breyting, þetta er afskaplega hófleg tillaga. Við eigum ekki að þurfa að horfa upp á annað tilfelli af Panama-skjölunum eða álíka til þess að skilja þörfina fyrir þetta.

Nú hef ég í fyrri störfum áður en ég kom á þing unnið talsvert við rannsóknir á m.a. skipulagðri glæpastarfsemi og spillingu. Þar var ítrekað og viðvarandi ástand að í hvert einasta skipti sem einhver var að gera eitthvað ólöglegt og skaðlegt samfélagi sínu var á einhverjum tímapunkti fyrirtæki af einhverju tagi í skattaskjóli sem tók á móti og ráðstafaði þeim fjármunum sem fengust í gegnum þá illu meðferð á fé, eignum og öðru.

Það er kannski óþarfi að nefna Bresku Jómfrúreyjar eða Belís eða önnur lönd sem hafa sérstaklega búið um sitt hagkerfi með þeim hætti að það verði auðvelt að gera þetta, þar sem er bókstaflega búið að búa til reglur sem heimila fólki að stinga undan peningum, frá skattyfirvöldum og frá samfélaginu sínu. En staðreyndin er að þetta er stórkostlega mikill iðnaður á heimsvísu. Það eru til tölur, m.a. frá Gabriel Zucman, um að allt að 14 trilljónum bandarískum dollurum sé skotið undan og komið í skattaskjól á heimsvísu, sem er að mig minnir um 13% af heildarheimsframleiðslu á hverju ári. Þetta er ekkert smá stór upphæð. Auðvitað er ekki nema örlítið brot af þessu sem á sér stað á Íslandi. En reyndin er engu að síður sú að Ísland er eitt þeirra landa þar sem þetta viðgengst. Við höfum ótrúlega miklar heimildir fyrir því.

Við höfum líka á annað hundrað mál sem eru í vinnslu hjá ríkisskattstjóra vegna Panama-skjalanna einna og sér, sem var gagnaleki frá einu lögfræðifyrirtæki sem sérhæfir sig í svona skattaskjólum. Nú skipta slík lögfræðifyrirtæki hundruðum á heimsvísu. Það eru meira að segja á sumum torgum í löndum sem ég hef komið til, inn á milli allra kaffihúsanna og veitingastaðanna, lögfræðistofur sem bjóða upp á þessa þjónustu ef maður gengur þar inn af götunni.

Ég á ekki von á því að það verði gagnalekar frá 100 lögfræðistofum eða þar um bil sem verða til þess að við komumst í allan sannleika um það hvað er verið að geyma hvar og hversu mikið, og jafnvel þó að það væri raunhæft væru stærstu aðilarnir ekki einu sinni þar inni.

Þetta er vandamál. Þetta er vandamál af þeirri stærðargráðu að það væri hægt að fjármagna öll heilbrigðiskerfi alls heimsins í heila öld fyrir þær fjárhæðir sem finnast í skattaskjólum. Það er því ekki nema eðlilegt að við reynum að stíga einhver lágmarksskref í átt að því að tryggja okkur upplýsingar um það hverjir eru að gera hvað og hvar og hversu mikið.

Með því að fá upplýsingarnar frá þeim löndum sem hægt er, að takmarka viðskiptin að einhverju marki við þau lönd þar sem við fáum upplýsingar eða alla vega að ganga efnahagslega gegn þeim löndum sem vísvitandi fela slóðir eigna, og að innheimta sérstakt eftirlitsgjald frá þeim sem eiga eignir í þeim löndum þar sem er bókstaflega erfitt að fá upplýsingar, þar sem eftirlit með skattgreiðslum og öðru er áberandi erfiðara en gengur og gerist, þá tökum við örlítið skref í áttina að því að uppræta þá vá sem skattaskjól eru á heimsvísu. Þetta er ekki stærsta skrefið sem mér dettur í hug að við gætum tekið, en þetta er skref engu að síður.

Ég vona að það verði tekið vel í tillöguna hjá efnahags- og viðskiptanefnd væntanlega og að þetta mál klárist, vegna þess að mikil hefur verið þörfin í gegnum tíðina. Hún er engu síðri nú.