148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

bann við kjarnorkuvopnum.

193. mál
[16:34]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Mikið svakalega er ég sammála þessari tillögu og mikið svakalega er hennar mikil þörf enda er það eiginlega til skammar fyrir okkur að það er ekki nóg með að við skyldum ekki hafa gengist undir þennan samninga á grundvelli Sameinuðu þjóðanna á sínum tíma, heldur mætti fulltrúi Íslands ekki einu sinni í atkvæðagreiðsluna, sem vekur spurningar um það hvort sé einhver stefna hjá stjórnvöldum á Íslandi að sniðganga atkvæðagreiðslur sem kunna að vera óþægilegar hjá Sameinuðu þjóðunum.

Þetta er eiginlega alveg bráðnauðsynlegt. Nú hafa verið sprengdar á jörðinni 2.050 kjarnorkusprengjur, rúmlega það, að vísu aðeins tvær í hernaðarskyni, en eins og kom fram í máli hv. þingmanns er í rauninni bara tímaspursmál hvenær það gerist aftur. Þetta er bara algjörlega borðleggjandi. En vandinn er að það er ekki alveg ljóst að svo sé vegna þess að Ísland er aðili að NATO og ég þykist vita að það verði ekki breyting þar á, enda kannski ekki fullkomin ástæða til, varnarsamstarfið er kannski mikilvægt.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvort hún sjái einhvers konar vandamál við það að Ísland skuli vera varið að hluta til gegn erlendum árásaraðilum af kjarnorkuvopnum okkar samstarfsríkja, hvort það að við séum í NATO og það muni ekki breytast muni skapa einhvers konar vandamál og hvort þetta passi inn í þjóðaröryggisstefnu stjórnvalda. Ég vil líka spyrja hvort þetta sé á einhvern hátt frábrugðið klasasprengjubanninu og jarðsprengjubanninu sem við erum þó aðilar að þrátt fyrir að NATO-aðildarfélagar okkar hafi (Forseti hringir.) beitt slíkum vopnum og geri það viðstöðulaust.