148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

bann við kjarnorkuvopnum.

193. mál
[16:38]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ísland er aðili að banni við klasasprengjum og við erum aðilar að banni við jarðsprengjum. Þó reka Bandaríkin eitt af stærstu jarðsprengjusvæðum heims, að vísu held ég að þau séu í fimmta sæti, þ.e. á landamærum Suður-Kóreu. Stærsta svæðið er í Vestur-Sahara, fyrir þá sem hafa áhuga á því. Vissulega nota þeir klasasprengjur áfram, að vísu var það lengi með því skilyrði að að lágmarki 5% sprengiefnis myndu ekki sprengja þær við notkun. Klasasprengjubannið snýst um áhættuna sem fylgir því að minni sprengjur úr klasasprengju springi og að börn muni jafnvel finna þær. Nú hefur þeirri takmörkun verið aflétt af hálfu Bandaríkjastjórnar á tíma Trumps.

Ekki hefur vafist fyrir íslenskum stjórnvöldum að gerast aðilar að þessu banni þrátt fyrir að samstarfsþjóðir okkar noti þessi tvö vopn sem eru vissulega ógeðsleg. Samt þráumst við einhvern veginn við og segjum að ekki sé hægt að gangast við banni á kjarnorkuvopnum vegna þess að Bandaríkin, Bretland, Frakkland og aðrar NATO-þjóðir kunni að þurfa á þeim að halda. Ég á erfitt með að skilja það. Af hverju þetta en ekki hitt? Í rauninni finnst mér ótækt að við rekum þá stefnu að elta NATO-þjóðirnar í blindni í svona mikilvægum málum. Ég þykist vita að hv. þingmaður sé sammála mér í því efni.

Ísland gæti tekið þetta mál upp og samþykkt það. Þá spyr ég: En með hvaða hætti er raunhæft að við lögum þann lýðræðishalla og þann mannréttindahalla sem er til staðar í NATO? Vegna þess að hann er vissulega umræðuefnið sem er í þessari tillögu.