148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

bann við kjarnorkuvopnum.

193. mál
[16:40]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála því að við höfum aðra samninga, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, eins og bann við klasasprengjum og jarðsprengjum, sem við erum aðilar að, og það hefur getað gengið upp þrátt fyrir veru okkar í NATO. Og eiginlega sem betur fer hefur það gengið upp. Ég held að við eigum að nota það sem ákveðið leiðarstef inn í umræðuna, því að leiðin er greinilega til. Ég held að þetta snúist að miklu leyti um pólitískan vilja og kannski svolítið pólitískt hugrekki, þ.e. að þora að brjóta ísinn og þora að fara inn á vettvang NATO og tala fyrir þessu. Ef Alþingi samþykkir þessa þingsályktunartillögu erum við hreinlega að fela ríkisstjórninni að gera það um leið og við gerumst aðilar að þessum sáttmála.

Ég veit ekki hvort ég er besta manneskjan til þess að svara því hvernig bregðast eigi við lýðræðishalla innan NATO enda er ég á móti veru okkar í því bandalagi og nota m.a. sem rök að ég telji það ekki lýðræðislegt bandalag. Það er svolítið erfitt fyrir mig að segja hvernig við eigum að bregðast við lýðræðishalla í bandalagi sem ég tel að ekki ríki lýðræði í. En við þurfum samt einhvern veginn að finna leiðir til þess að feta okkur áfram.

Líkt og ég sagði áðan held ég að leiðin í þá átt hljóti að vera að taka umræðuna á þeim vettvangi. Þá kemur kannski í ljós það sem ég hef lengi haldið, að ekki sé lýðræði í NATO.