148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

bann við kjarnorkuvopnum.

193. mál
[16:57]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þm. Smára McCarthy um að það sé ekkert í aðild okkar að NATO sem komi í veg fyrir að við samþykkjum þennan samning. Mér finnst gott að heyra að það er samstaða milli okkar um þennan samning þótt afstaða okkar til aðildar að NATO sé á einhvern hátt ólík.

Mig langaði að syndga aðeins upp á náðina og vona að hæstv. forseti ávíti mig ekki fyrir það. Mig langar að ræða aðeins orð hv. þingmanns um NATO, þó að það sé ekki beinlínis efni þessarar þingsályktunartillögu.

Hv. þingmaður talaði um að hann væri þeirrar skoðunar að Ísland ætti að vera í varnarbandalagi, eða að ekki væri ástæða til að vera ekki í varnarbandalagi, en um leið sagði hann að NATO hefði í raun aldrei verið varnarbandalag. NATO hefur verið til síðan árið 1949. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvenær hann telji fullsannað að NATO sé ekki varnarbandalag heldur einmitt alhliða hernaðarbandalag með öllu sem því fylgir, þar með talið hernaðarárásum.

Hv. þingmaður talaði um að við ættum að draga línu í sandinn þegar kæmi að ýmsu sem ég og hv. þingmaður erum sammála um, varðandi klasasprengjur og kjarnorkuvopn, og fleira var tínt til. Ef farið verði yfir þá línu, telur hv. þingmaður þá að Ísland eigi að hætta í NATO?