148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

bann við kjarnorkuvopnum.

193. mál
[16:59]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé kemur hér með mjög góðan vinkil. Ég þakka fyrir það. Ég ætla fyrst að leiðrétta, eða ég hugsa að þetta sé leiðrétting. Ég tel að aðild okkar að NATO sé einmitt kjarni málsins. Aðild okkar að NATO er eina ástæðan fyrir því, að ég tel, að við erum ekki nú þegar aðilar að þessum samningi. Þó svo að ekkert sé sérstaklega fjallað um NATO-aðild í tillögunni sem slíkri, alla vega ekki sem forgangsatriði, er aðild okkar raunverulega það sem þetta mál snýst um. Við verðum að vera meðvituð um það.

Hvenær er fullreynt? Ég er ekki viss. Fyrst hv. þingmaður kemur með þennan vinkil er kannski löngu orðið fullreynt ef út í það er farið. Ég er alveg tilbúinn til þess að sætta mig við að kannski sé það fullreynt, enda hef ég verið svo mikið fyrir að reyna að lýðræðisvæða stofnanir, sem skýrir kannski að hluta til veru mína hér. En við höfum engu að síður ákveðna þjóðaröryggishagsmuni sem við þurfum að verja. Það er hugsanleg innrásarhætta þó svo að hún sé ótrúlega lítil í dag samanborið við hvernig hún var hér á árum áður. En hún er samt einhver. Það er alltaf þess virði að vera viðbúinn henni.

Það eru líka aðrar hættur, hryðjuverk, tölvuöryggishætta og þess háttar, upplýsingaöryggishætta, sem við þurfum að vera á varðbergi gagnvart. Sumt af því getur NATO aðstoðað okkur við, eins og varðandi innrásarhernað. Flest af því, ef við eigum að vera algjörlega heiðarleg. Stærsta ógnin við Ísland núna varðandi þjóðaröryggishættu er upplýsingaöryggi. NATO getur ekki gert neitt til þess að verja okkur í því efni og ætlar ekki einu sinni að reyna það, að því er mér virðist.