148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

bann við kjarnorkuvopnum.

193. mál
[17:04]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist að við séum að vissu leyti nokkuð sammála. Ég er að vísu ekki alveg sammála því að það sé endilega slæmt að vera með kjarnorkuvopnastefnu, enda er þessi þingsályktunartillaga að hluta til tillaga um að koma með ákveðna stefnu í kjarnorkuvopnum. Það er ágætt að hafa einhverja stefnu og auðvitað á stefnan að vera tekin á frið. Um það erum við alveg fullkomlega sammála, held ég.

Það er ágætt að nota tímann til þess að horfa á hætturnar sem steðja að Íslandi vegna þess að þær eru til staðar. Þar til nokkrar aldir eru liðnar frá því að síðasta land varð fyrir árás í heiminum eða síðasta borgarastyrjöld geisaði verðum við að einhverju leyti að huga að getu okkar til þess að verja okkur. Kannski er bein þátttaka í varnarbandalagi ekki nauðsynleg til þess. Það er umræða sem ég vil gjarnan taka. (KÓP: … upplýsingafrelsi.) — Já, já.

En það eru nýjar ógnir að verða til. Ég hef kvartað yfir því við háttsetta embættismenn innan NATO, meira að segja hershöfðingja og fleiri, sem hafa viljað tala fyrir því að netið verði gert að fimmta vígvellinum, þ.e. á eftir landi, sjó og lofti, að netið verði fimmti vígvöllurinn, þá í geiminum. Því er ég svo innilega ósammála.

Í rauninni eru þegar til geimsáttmálar sem banna allan hernað ofar en 100 km frá sjávarmáli. Auðvitað á að vera sams konar samningur um að banna allan nethernað. En netárásir eru engu að síður sú ógn sem mest hætta stafar af. Það er ekki hægt að stunda skipulagðan gagnhernað til þess að verja sig gegn honum. Nethernaður er helsta þjóðaröryggisvandamál okkar tíma. Við þurfum að beita töluvert meiri skynsemi og heildrænni nálgun til þess að koma í veg fyrir öryggisógn (Forseti hringir.) hvað það varðar.