148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

samgönguáætlun.

[15:04]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er auðvelt að fullyrða að vel sé þverfótað fyrir stjórnarfrumvörpum hér. Á málaskrá ríkisstjórnarinnar eru yfir 100 mál og aðeins nokkrir tugir komnir fram. Það verður því ansi mikill handagangur í öskjunni í vor og hætt við að mistök verði eins og oft vill verða. Ég ætla ekki að heimta að stjórnin efni loforð um að leggja öll þessi mál fram heldur að hún efni þau sem brýnust eru og flokkarnir hafa haft stærst orð um í aðdraganda tvennra síðustu kosninga.

Eitt af þeim sem stendur upp á hæstv. samgönguráðherra heitir samgönguáætlun. Hún var samþykkt samhljóða í aðdraganda kosninga árið 2016 í tíð hans sem forsætisráðherra. Óbreytti þingmaðurinn Sigurður Ingi Jóhannsson sagði í ræðustól árið 2017 í umræðum um fjármálaáætlun að þáverandi ríkisstjórn ynni í engu samræmi við gefin kosningaloforð og að verk hennar bæru vott um metnaðarleysi. Með leyfi forseta:

„Að ekki sé minnst á samgönguáætlun eða samgöngur. Þar skilar ríkisstjórnin einfaldlega auðu.“

Nú ætlar sami maður líka að skila auðu. Hann svaraði blaðamanni Stöðvar 2 þann 20. desember síðastliðinn á þann hátt að óheppilegt hefði verið að afgreiða samgönguáætlun með svo miklum væntingum. Þannig svipar hinum íslenska stjórnmálamanni oft til eðlutegundarinnar kamelljóns sem skiptir litum til að fela sig, kannski ekki fyrir kjósendum heldur til að falla inn í fjöldann.

Ég spyr hæstv. samgönguráðherra: Hyggst hann leggja fram samgönguáætlun í líkingu við þá sem samþykkt var haustið 2016 í ljósi þess að bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru núna í ríkisstjórn og Vinstri græn studdu hana?

Númer tvö: Ef ekki, hvers vegna?

Númer þrjú og kannski það mikilvægasta: Verður ný samgönguáætlun lögð fram fyrir sveitarstjórnarkosningar?