148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

sjúkrabifreið á Ólafsfirði.

[15:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hún skrifaði reyndar grein í blaðið í dag þannig að ég gat búið mig aðeins betur undir þessa óundirbúnu fyrirspurn en ella.

Skipulag heilbrigðisþjónustu og sjúkraflutninga á þessu svæði, Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík, hefur verið til umræðu mjög mörg undanfarin ár. Ljóst var að með tilkomu bættra samgangna, Héðinsfjarðarganga, myndu ýmsar forsendur breytast. Þetta hefur verið til skoðunar um nokkurt skeið. Með göngunum sameinuðust þessi tvö fyrrnefndu sveitarfélög og í kjölfarið heilbrigðisstofnanirnar á þessum stöðum. Þar voru uppi umræður um þátttöku Dalvíkur í þessum sameiningum en varð ekki af fyrr en Heilbrigðisstofnun Norðurlands varð til í lok ársins 2014 með sameiningu allra heilbrigðisstofnana á Norðurlandi utan Sjúkrahússins á Akureyri.

Unnar hafa verið fjölmargar skýrslur um sjúkraflutninga á undanförnum árum. Ein árið 2008, önnur 2011, 2012 o.s.frv. Ég hef haft af þessu áhyggjur, réttmætar áhyggjur að mínu mati. Það skiptir afar miklu máli að íbúar megi treysta þeirri þjónustu sem er í nærumhverfinu. Hins vegar er ákvörðun af þessu tagi á hendi forstjóra Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Hann ber faglega og fjárhagslega ábyrgð á því að forgangsraða í sínu umdæmi. Eftir yfirferð á skýrslunum varð niðurstaðan sú að leggja niður vakt sjúkraflutningamanna á Ólafsfirði og koma á vettvangsliðateymi. En sjúkraflutningur kemur síðan frá Siglufirði í flestum tilvikum eða frá Dalvík. Menntun sjúkraflutningamanna á Dalvík og í Fjallabyggð hefur verið efld, m.a. með ráðningu annars sjúkraflutningamanns í fullt starf á Siglufirði og aukinni menntun annarra starfsmanna.

Það er mat ráðuneytisins að með þessari ákvörðun hafi öryggi aukist á svæðinu í heild og að hún sé í fullu samræmi við stefnu heilbrigðisyfirvalda. Hins vegar vil ég segja að ég hyggst hitta þingmenn kjördæmisins (Forseti hringir.) nú í vikunni og fara yfir þessar forsendur því að ég tel rétt að hlusta á heimamenn í þessu sem öðru.