148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

barnaverndarmál.

[15:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Mig langar að eiga aðeins orðastað við hæstv. félags- og jafnréttisráðherra út af málefnum Barnaverndarstofu. Ég verð að viðurkenna að ég varð eiginlega litlu nær eftir svör ráðherra áðan þannig að ráðherra hefur tækifæri til þess að vera öllu skýrari í seinni umferð.

Þær kvartanir sem settar voru fram af hálfu barnaverndarnefnda á höfuðborgarsvæðinu og sem birtar hafa verið opinberlega voru af mjög alvarlegum toga. Þær sneru að fjölmörgum þáttum er vörðuðu starfshætti fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu og samskiptum Barnaverndarstofu almennt við barnaverndarnefndirnar. Ég veit að þær voru ekki settar fram af neinni léttúð. Hins vegar er svo að skilja af orðum ráðherra að niðurstaða ráðuneytisins sé sú að við þessi vinnubrögð hafi ekkert verið að athuga þrátt fyrir ítrekuð óformleg og að mati barnarverndarnefndanna óeðlileg afskipti forstjóra Barnaverndarstofu af einstökum málum.

Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra og fá skýr svör, takk fyrir: Er það niðurstaðan að þessi vinnubrögð hafi verið í alla staði í góðu lagi? Er hægt að skilja það öðruvísi en svo að fyrst ríkisstjórnin styður framboð fyrrverandi forstjórans til starfs á alþjóðavettvangi að hún styðji þau vinnubrögð sem þarna voru viðhöfð? Er það mat ráðherrans að það muni endurreisa það traust sem ítrekað var lýst yfir af hálfu barnaverndarnefnda höfuðborgarsvæðisins að væri algjörlega brostið milli Barnaverndarstofu og barnaverndarnefndanna, svo alvarlega að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur fór fram á það að forstjóri Barnaverndarstofu yrði metinn vanhæfur til þess að meðhöndla mál nefndarinnar, og raunar svo að fenginn yrði utanaðkomandi aðili til þess að annast mál nefndarinnar þar sem traust (Forseti hringir.) gagnvart Barnaverndarstofu væri algjörlega þorrið?