148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

sala á hlut ríkisins í Arion banka.

[15:42]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda þessa óundirbúnu fyrirspurn. Hann fullyrti reyndar að hægt væri að fá hærra verð á markaði. Ef það reynist nú verða svo að bankanum takist að komast í skráningarferli og skrá sig og það fæst verulega hærra verð, þá var sem betur fer þannig um hnútana búið í samningum um stöðugleikaskilyrðin að afkomu- og ábatasamningur ríkisins mun þá skila umtalsverðum fjármunum til ríkisins. Það verður þá að fullu fjármagnað, þ.e. þeir fjármunir sem menn töldu hugsanlega hægt að taka út úr og væri eðlilegt til að viðhalda stöðugleika hér í landinu, það mun skila sér til ríkisins.

Ég hef ekki skipt um þá skoðun að æskilegast sé að eigendur að bönkum séu aðrir aðilar en sjóðir sem hafa, alla vega samkvæmt þeirri vitneskju sem við höfum, fyrst og fremst þann tilgang að hámarka virði sitt sem hraðast og hafa ekki endilega heldur haft uppi neina sýn á langtímaeigendastefnu og hvernig þeir muni reka þennan banka.

Við erum hins vegar í gati sem varð til vegna þess að í stöðugleikaskilyrðunum var opnaður gluggi fyrir þessa aðila að kaupa sig inn í bankann. Það er kannski rétt að hv. þingmaður beini þeim fyrirspurnum til annars en mín hvernig sá gluggi varð til. Hann var hins vegar nýttur af þessum sjóðum. En það virðist hafa gleymst eða verið látið hjá líða að líta til þess að á árinu 2009 var gerður samningur milli ríkisstjórnarinnar og þessara aðila, eða Seðlabankans reyndar, um fortakslausan kauprétt. Það hefði alveg mátt spyrja sig hvort það hefði verið skynsamlegt að hann hefði verið tekinn upp um leið og stöðugleikaskilyrðin voru sett á sínum tíma og sá samningur þannig að þessi kaupréttur væri ekki til staðar. En hann var til staðar. Hann er staðreynd. Við stóðum við hann.