148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

ummæli þingmanns í Silfrinu.

[15:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Þegar rætt er um alvarleg brot, brot á hegningarlögum, sem eru bæði refsiverð og saknæm, verða menn, jafnvel hv. þingmenn, að gæta orða sinna. Þegar gefið er í skyn með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði á opinberum vettvangi, að framin hafi verið saknæm og refsiverð brot, þarf eitthvað meira að vera fyrir hendi en bara hugrenningar viðkomandi þingmanns. Það hefur ekkert komið fram í sambandi við akstur þingmanna sem gefur tilefni til þess að ætla að framin hafi verið refsiverð brot. Það er ekkert sem komið hefur fram um það. Ef hv. þingmaður hefur einhverjar upplýsingar um það sem við hin höfum ekki vænti ég þess að þær komi fram.