148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

ummæli þingmanns í Silfrinu.

[15:52]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Það hefur komið fram í umræðum um þetta mál að hv. þingmaður sem hér um ræðir, Ásmundur Friðriksson, hefur sjálfur upplýst um það að hann hafi rukkað fyrir ýmsar ferðir sem má draga verulega í efa að hafi haft nákvæmlega með þingstörf hans að gera. Kaffiferðir um kjördæmið eru ekki endilega eða réttilega eitthvað sem hægt er að rukka þingið fyrir.

Það hafa komið fram í opinberri umræðu greinargóðar skýringar á því að sé ekki rétt farið með, ef verið er að rukka þingið fyrir eitthvað sem þingið á ekki að borga fyrir, þá geti það talist fjársvik. Það hefur líka komið fram og það var ekki bara ég sem hér stend sem segi það heldur bara mikilsvirtir fræðimenn í lögfræði. Þannig að ég veit ekki alveg hvað hv. þingmaður er að gefa í skyn.

Ég endurtek enn og aftur: Ég sagði ekki að brot hefði átt sér stað, ég kallaði eftir rannsókn á því og það má, hæstv. forseti, það má kalla eftir því að stofnanir þessa samfélags standi sig í stykkinu, sama gagnvart hverjum.