148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

ummæli þingmanns í Silfrinu.

[15:54]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að menn séu svolítið að nota hugtök sem þeir ráða ekki alveg við í þessu máli. Þegar sagt er að það sé rökstuddur grunur um að menn hafi framið refsiverðan verknað sem varði við hegningarlög eru þeir að segja mjög mikið. Venjulega dugir það til þess að menn séu jafnvel settir í gæsluvarðhald o.s.frv.

Þegar menn hafa engin gögn til staðfestingar þessu — og það breytir engu þó að í umræðunni hafi verið sagt að menn hafi hugsanlega ekki átt rétt á endurgreiðslu á einhverjum akstri — þá uppfyllir hvorki skilyrði fjársvikabrots né fjárdráttarbrots eins og einhvern tíma var í umræðunni, eins gáfulegt og það var nú. Menn eru auðvitað að misskilja þetta. Það er alvarleg ásökun sem menn nota ekki, hvorki í pólitískum tilgangi né öðrum, að segja að það sé rökstuddur grunur um hegningarlagabrot eða refsiverða háttsemi. Menn eiga í raun og veru að skammast sín fyrir að nota svona.