148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

ummæli þingmanns í Silfrinu.

[16:00]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Bara svo landsmenn skilji líka jákvæðu hliðarnar í þessu, hvað er að gerast hérna, þá munum við líklega fá upplýsingar um þingfararkostnað þingmanna tíu ár aftur í tímann, og virðist vera samhljómur um það. Það er gríðarlega jákvætt skref fyrir landsmenn alla en ekki síst fyrir okkur sem störfum hérna, að þetta sé allt gegnsætt. Því að þegar menn hafa svolítið sjálfdæmi eða þegar lítið eftirlit er með hlutunum og hvernig menn fara með þá, er freistnivandi. Við vitum alveg að það er freistnivandi. Þetta er líka gott fyrir okkur að freistnivandinn sé tekinn út af borðinu. Þetta er gegnsætt. Landsmenn sjá það. Það mun þýða meira traust á okkur þegar fram í sækir. Það mun þýða að landsmenn munu segja: Já, þarna tóku þingmenn ákvörðun um að hafa þetta gegnsætt, hafa allt uppi á borðum. Það er er jákvætt.

Og svo varðandi hitt, eftirlitið. Það er líka jákvætt. Það er lögbundin skylda forsætisnefndar að hafa eftirlit með hvernig fjármunum þingsins er varið, og um það höfum við fengið upplýsingar frá skrifstofu Alþingis. Það er auðvelt að lesa út úr lögunum: Það er lögbundin skylda okkar að hafa eftirlit með því (Forseti hringir.) hvernig fjármunum þingsins er varið. Það er það sem við munum gera. Þetta kemur allt upp á yfirborðið. Hvernig sem það fer er þetta allt saman mjög jákvætt þó að það sé óþægileg fyrir suma eins og staðan er núna.