148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

ummæli þingmanns í Silfrinu.

[16:01]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hv. forseti. Ég vil segja við hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson að það er enginn misskilningur í þessu og það er enginn orðhengilsháttur.

Þegar sagt er að það sé rökstuddur grunur um að einhver hafi framið hegningarlagabrot og að lögreglan þurfi að rannsaka, af því að lögreglan rannsakar ekki brot nema það sé rökstuddur grunur, er verið að segja að það sé rökstuddur grunur og að fyrir liggi gögn um að viðkomandi hafi framið slíkt brot.

Hér liggja engin gögn fyrir um það og engin umræða í samfélaginu breytir því, þó að það geti verið umræða í samfélaginu um að hugsanlega hefði þingmaðurinn ekki átt rétt á einhverjum af þessum greiðslum. En til þess að það sé brot þá þarf hann að blekkja. Hann þarf að blekkja út peninga, hann þarf þá að skrifa rangan texta eða eitthvað slíkt.

Ekkert slíkt er í málinu. Og svo komið þið öll hér, hv. þingmenn, og blaðrið um þetta með þessum hætti, að hér sé einhver misskilningur eða einhver orðhengilsháttur. Þetta er ekki orðhengilsháttur. Verið er að saka menn um alvarleg brot og menn eiga að skammast sín fyrir það.