148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

ummæli þingmanns í Silfrinu.

[16:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég get alveg tekið undir með mönnum hér að okkur ber að tala varlega um mál af þessu tagi og fara varlega með þær ásakanir sem settar eru fram. En við skulum hins vegar ekki gera lítið úr þeim. Við þurfum að gera betur í þessu máli en við höfum þegar gert.

Við þurfum að opna fyrir upplýsingar um þær greiðslur sem þarna eiga sér stað, auka gagnsæi þeirra, skýra með betri hætti gagnvart almenningi hvaða reglur gildi um þær og jafnvel að endurskoða þær reglur sem um þær gilda. Því að við þurfum líka að átta okkur á því að í sumum tilvikum í það minnsta höfum við sett okkur hagstæðari reglur um okkur sjálf en almenningur nýtir almennt, t.d. þegar kemur að skattfrelsi ökutækjagreiðslna. Það finnst mér óeðlilegt. Mér finnst að við hljótum að þurfa að setja sömu mælistiku á okkur í endurgreiðslu og skattfríðindum af útlögðum kostnaði og gildir um alla aðra landsmenn. Það er sú vinna sem við eigum eftir. Við þurfum að ljúka við að upplýsa um þessar greiðslur þannig að þær séu gagnsæjar, en við þurfum líka að tryggja að þær séu í samræmi við það sem gengur og gerist almennt hjá öðrum (Forseti hringir.) borgurum þessa lands. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)