148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

ummæli þingmanns í Silfrinu.

[16:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst hver málsatvik eru hérna. Komið hefur fram að skrifstofustjóri Alþingis hefur sagt að ekki hafi verið haft eftirlit með þessum greiðslum. Það hefur komið fram í viðtali við Stundina. Það hefur líka komið fram að lektor í refsirétti, held ég að hafi verið, segir að þegar ekki sé greint rétt frá endurgreiðslum séu það fjársvik.

Það er mjög skýrt í lögum um þingfararkostnað og reglum forsætisnefndar að endurgreiða skuli alþingismanni kostnað við ferðir ef hann þarf að ferðast innan lands í tengslum við störf sín. Þar má setja risastórt spurningarmerki við það hvort endurgreiðsla vegna prófkjörs eða kosningabaráttu tengist í alvörunni störfum þingmanns eða frambjóðanda.

Þetta liggur hérna fyrir framan okkur. Ef þetta endar í því að það varði við brot á hegningarlögum verðum við að kalla það því nafni. Það eru engin gífuryrði. Það er einfaldlega, eins og ég sagði áðan, að kalla hrút hrút.