148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lestrarvandi og aðgerðir til að sporna gegn honum.

[16:27]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa góðu umræðu og hæstv. ráðherra sömuleiðis. Það er nefnilega ekki gamaldags að læra að lesa. Það ætti frekar að vera gamaldags að kunna ekki að lesa sér til gagns.

Það er eðlileg krafa að öll börn geti lesið sér til gagns í lok grunnskólagöngu sinnar. Læsi er grundvallarfærni og forsenda þess að einstaklingar eigi möguleika á virkri þátttöku í lýðræðissamfélaginu. Það er óásættanlegt að 30% drengja geti ekki lesið sér til gagns. Vandinn er aðallega drengja. Það má því segja að þetta sé strákavandi. Aðallega en ekki einvörðungu.

Það mun hafa mikil áhrif á ungling síðar á lífsleiðinni sem ekki getur lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla. Það mun hafa bæði slæm áhrif á námsframvindu í framhaldi af grunnskóla, á atvinnutækifæri og að auki eykur það líkurnar á brotthvarfi úr framhaldsskóla. Þeir sem ekki geta lesið sér til gagns og eiga strax erfitt með lestur í upphafi skólagöngu sinnar er hættara á brotthvarfi úr skóla síðar meir en öðrum. Þarna er stór vandi og við þurfum að horfa á brotthvarfið mun fyrr en þegar í framhaldsskólann kemur því að þá er það orðið svolítið seint.

Fylgnin er mikil milli þeirra sem sýna strax að þeir eiga í erfiðleikum með lestur og þeirra sem hverfa úr framhaldsskólanum. Brotthvarfsvandinn er allt of stór og hefst strax í grunnskólunum. Við megum ekki klikka á þessu með því að bregðast of seint við.

Næsta kynslóð verður að vera undirbúin undir að geta fylgt eftir hraðari þróun starfa. Stór hluti þeirra starfa sem þekkjast í dag verður horfinn innan nokkurra ára. Sjaldan hefur því verið mikilvægara að leggja aukna áherslu á grunnfögin. Aukin krafa verður um nýja kunnáttu sem ekki verður lærð án þess að fólk geti lesið sér til gagns.

Við þurfum að leggja meiri áherslu á lestur barna. Þjóðarsáttmáli um læsi var gríðarlega mikilvægt átak sem þáverandi menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson kom á. Það er margþætt átak til ársins 2020 sem mun skila okkur enn betra menntakerfi til framtíðar. Ég fer nánar í það á eftir.