148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lestrarvandi og aðgerðir til að sporna gegn honum.

[16:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Alltaf mikilvægt að nýta stólinn, þetta mikla lýðræðistæki, og ég veit að allir þingmenn bera mikla virðingu fyrir stólnum og vilja frekar nýta sér hann en að festast á milli sæta hér.

Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið. Við erum búin að greina þetta í drasl að mínu mati. Við erum búin að skrifa endalausar skýrslur. Það er kominn tími til að við förum í raunverulegar aðgerðir. Við þurfum að skoða betri námsgögn, fleiri námsgögn, vera með úrval skemmtilegra og hvetjandi bóka fyrir börnin okkar, strákana, meiri málörvun. Við eigum ekki að binda okkur við það hvaða rekstrarform það er sem sér um útgáfu bókanna. Við eigum einfaldlega að leita að bestu bókunum, hvort sem það er ríkisútgáfan, fyrrum Námsgagnastofnunin gamla eða einhverjir aðrir. Það er það sama með talmeinafræðingana, við eigum að leita að þjónustunni þar sem hún er til að örva börnin okkar og tryggja þeim þjónustu.

Það er að mínu mati ekkert að strákunum okkar í kollinum en um leið og þeir lenda í vandræðum er mjög erfitt að fá þá til baka inn í kerfið. Þess vegna undirstrika ég það sem ég sagði áðan að við verðum að taka utan um þá strax í leikskóla. Við verðum að hvetja þá áfram fyrir minnstu framfarir sem þeir sýna og veita þeim hlýju. Þá eru þeir með okkur í liðinu.

Aðeins varðandi kennaranámið. Ég segi það vegna þess að mér er málið pínulítið skylt því að ég stóð fyrir því, með öllum stjórnmálaflokkum, það mælti enginn á móti því, að lengja kennaranámið. Við litum einmitt á sínum tíma til Finnlands. Við spurðum: Hvað eru Finnarnir að gera sem við gerum ekki? Þeir taka sérstaklega utan um kennarana, allt frá kennaramenntuninni inn í kennarastarfið. Það sem við þurfum að spyrja okkur að núna er: Af hverju hefur framkvæmdin ekki tekist sem skyldi? Ég bind miklar vonir við hæstv. ráðherra sem hefur sýnt nákvæmlega þessu máli mikinn skilning.

Það þarf að starfstengja framhaldið. Það þýðir ekki bara að bæta uppeldis- og kennslufræði inn í viðbótarnámið heldur þurfum við að starfstengja það mun betur, hugsanlega launa það líka og tryggja að (Forseti hringir.) kennaranemar fái nasasjón af því hvað skólastarfið er fjölbreytt. Ekki senda þá bara í einn skóla því að skólarnir eru svo misjafnir og mismunandi þannig (Forseti hringir.) að þeir fái reynslu á vettvangi. Við þurfum að passa upp á að hún komi m.a. í gegnum kennaramenntunina. Styðjum kennarana okkar, förum í aðgerðir, þá verður framtíðin betri fyrir íslenskt skólakerfi.