148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lestrarvandi og aðgerðir til að sporna gegn honum.

[17:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni verulega fyrir þeirra innlegg. Hér hafa komið fram margar góðar athugasemdir og hugmyndir um hvernig við ætlum að ráðast í þetta verkefni.

Ég ætla aðeins að fara til Finnlands og nefna hvað Finnar gerðu á sínum tíma. Eftir seinni heimsstyrjöldina voru þeir í mjög erfiðum málum efnahagslega og þjóðfélagið stóð á miklum tímamótum. Þeir hugsuðu: Hvernig ætlum við að iðnvæðast, fara í þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir? Þeir stóðu frammi fyrir miklum og háum stríðsskaðabótum, það varð mikið mannfall í seinni heimsstyrjöldinni, en þjóðarsátt var um að gera það í tengslum við menntun. Árið 1952 sameinaðist allur þingheimur um að fara í umfangsmiklar kerfisbreytingar á menntakerfinu og menntastefnunni. Þetta varð til þess að þeim tókst það vel til að menntakerfi þeirra þykir eitt það besta. Og það sem meira er, þeir eru stöðugt að endurskoða það sem þeir eru að gera til að mæta þeim þörfum sem nútíminn krefst af þeim. Ég hef verið að líta verulega til Finnlands og þeirra menntakerfa sem standa sig einna best.

Ég hitti kóreska menntamálaráðherrann þegar ég var þar á dögunum og sagði: Nú stöndum við frammi fyrir þessum áskorunum. Ég held reyndar að okkur muni takast mjög vel til og hef þá sýn að íslenska menntakerfið verði orðið eitt það besta áður en langt um líður. Og ég sagði: Hvað ráðleggurðu mér þegar við stöndum frammi fyrir þeirri áskorun varðandi lesskilning og annað slíkt? Hann sagði: Ég ætla að gefa þér eitt ráð, styrkið alla umgjörð í kringum kennarana ykkar. Það höfum við alla tíð gert. Við erum ekki að gera þetta bara á síðustu áratugum, við höfum gert þetta í árhundruð. Kennarar njóta mikillar virðingar. Við pössum upp á að þeir nái að fara í símenntun og annað slíkt.

Ég er alveg sannfærð um (Forseti hringir.) að hinn íslenski þingheimur muni fara í þá vegferð. Við munum öll gera það saman til að ná góðum árangri.