148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lýðháskólar.

184. mál
[17:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mér skilst varðandi lýðháskólann á Flateyri, sem stofnað hefur verið félag um að setja á fót, að reiknað sé með að námið verði tvær annir, eða eins og segir í viðtali við framkvæmdastjóra skólans, með leyfi forseta:

„Við reiknum með að námið verði tvær annir, en höfum ekki útilokað að fólk geti komið í hálft ár. Svo verður þetta keyrt í lotum, það verður engin hefðbundin námskrá. Námsbrautirnar munu snúast um tónlist, kvikmyndagerð og svo umhverfi og náttúruna.“

Ef ég skil þetta rétt getur fólk komið og lært, ekki er fyrir fram ákveðið hvernig námsbrautirnar eru, hver námsframvindan á að vera nákvæmlega eða svoleiðis. Mér finnst það mjög jákvæð þróun. Ég var í þannig umhverfi á Taílandi á sínum tíma. Ég fór að ferðast um heiminn eftir að hafa gjörsamlega gengið út úr í hinu íslenska menntakerfi sem hentaði mér ekki vel. Ég fór að ferðast um heiminn. Á Taílandi fór ég í bókabúð með notaðar bækur og fann þar bók sem heitir „Teach Yourself to Think“, eða Kenndu sjálfum þér að hugsa, eftir Edward de Bono. Ég varð aftur forvitinn, langaði aftur að fara að læra og síðan þá hef ég eiginlega ekki gert neitt annað. Menntakerfinu hér hafði tekist að berja úr mér (Forseti hringir.) allan vilja til að læra þangað til ég komst í umhverfi þar sem ég hafði frelsi til að gera það sem mér sýndist í þeim efnum. Ég varð aftur forvitinn og hef ekki stoppað síðan.